Sjáðu ótrúlegt Íslandsmet Þuríðar

20.02.2017 - 20:14
„Milljónir manna munu dást að þessum tilþrifum,“ sagði kraftajötuninn Hjalti Úrsus Árnason, um ótrúlega Íslandsmetslyftu Þuríðar Erlu Helgadóttur á Íslandsmótinu í ólympískum lyftingum sem fram fór í Mosfellsbæ í gær.

Þuríður Erla úr Ármanni kom sá og sigraði í kvennaflokki á Íslandsmótinu í ólympískum lyftingum í Mosfellsbæ um helgina. Þuríður Erla, sem hefur um árabil verið ein fremsta CrossFit-kona landsins og keppt reglulega á heimsleikunum, varð Íslandsmeistari í ólympískum lyftingum í -58 og -63 kílógramma flokki og bætti við þremur nýjum Íslandsmetum á ferilskránna.

Mesta athygli vakti ótrúleg lyfta Þuríðar þegar hún jafnhenti 106 kílóum, en sjálf er hún 58,8 kíló. Þuríður lenti í miklu basli en náði á undraverðan hátt að fá lyftuna gilda með mikilli þrautseigju.  „Ég var eiginlega ekki að búast við því að komast upp úr þessari stöðu,“ sagði Þuríður eftir að hafa sett ótrúlegt met.  Kraftajötuninn Hjalti Úrsus Árnason var um árabil í fremstu röð í Evrópu í kraftlyftingum og hann varð vitni að lyftunni hjá Þuríði í gær, „Þetta er eitthvað sem maður fær bara að sjá einu sinni á ævinni,“ sagði Hjalti í samtali við RÚV.

Andri Gunnarsson úr Lyftingafélagi Garðabæjar var líka í miklum ham á mótinu í Mosfellsbæ um helgina og bætti þrjú Íslandsmet í plús 105 kílógramma flokki. Hann lyfti 160 kílóum í snörun og 190 kílóum í jafnhendingu og fór því samanlagt upp með 350 kíló. Hann varð langefstur í Sinclair-stigum en þau eru reiknuð út frá þyngd keppenda.

Gunnar Birgisson
íþróttafréttamaður