Sinfóníuhljómsveitin og Víkingur í Gautaborg

19.04.2017 - 11:42
Mynd með færslu
 Mynd: Sinfóníuhljómsveit Íslands
Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur í dag tónleika í tónlistarhúsi Gautaborgar, ásamt aðalstjórnanda hljómsveitarinnar, Yan Pascal Tortelier, og Víkingi Heiðari Ólafssyni. Tónleikunum verður streymt á vef í hljóð og mynd og hægt verður að horfa þá hér.

Hljómsveitin flytur þar verkið Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur. Deutsche Grammophon, ein virtasta útgáfa á sviði klassískrar tónlistar, gaf út hljómplötu hennar Aerial fyrir tveimur árum.

Víkingur Heiðar Ólafsson leikur einleik í Burleske eftir Richard Strauss sem er lýst sem „eins konar píanókonsert með glettnu ívafi“ á vef sinfóníuhljómsveitarinnar. Hann kom nýverið fram á einleikstónleikum í Hörpu, þar sem hann flutti píanóverk eftir Philip Glass. Hægt er að hlusta á upptöku frá tónleikunum á vef RÚV. Víkingur hefur sömuleiðis komið út hjá Deutsche Grammophon.

Sinfóníuhljómsveit Íslands flytur að lokum sinfóníu nr. 2 eftir Sibelius, eitt dáðasta verk tónskáldsins finnska.

Tónleikarnir hefjast kl. 17:30 að íslenskum tíma.

Einnig er hægt að horfa á útsendinguna með smáforritinu GSOplay. Þar er boðið upp á beinar útsendingar frá tónleikum Gautarborgarsinfóníunnar og gestahljómsveita, upptökur frá tónleikum og viðtöl við hljómsveitarstjóra og tónlistarmenn.

Mynd með færslu
Davíð Kjartan Gestsson
vefritstjórn