Símtal veldur fjöldamótmælum í Brasilíu

epa05215245 Demonstrators protest against the appointment of the former President Luiz Inacio Lula da Silva as Chief of Staff, at the Paulista Avenue in Sao Paulo, Brazil, 16 March 2016. Hundreds of people protested against Brazilian President Dilma
 Mynd: EPA  -  EFE
Þúsundir þustu á götur Sao Paulo borgar í Brasilíu í gærkvöld til þess að krefjast afsagnar Dilmu Rousseff, forseta landsins. Dómari birti opinberlega upptöku af símtali Rousseffs og Luiz Inacio Lula da Silva, forvera hennar. Í símtalinu heyrist Rousseff segja honum að hann geti notað ráðherrastöðu sína þyki honum það nauðsynlegt.

Lula samþykkti boð Rousseff um ráðherrastöðu í byrjun vikunnar. Hann var handtekinn í síðustu viku og yfirheyrðu vegna rannsóknar á peningaþvætti í tenglum við spillingarmál tengdu ríkisolíufélaginu Petrobras. 

Í símtalinu, sem birt var opinberlega af Sergio Moro, dómara sem sér um rannsókn spillingarmálsins, heyrist Rousseff segja Lula að hún muni senda honum ráðherratilskipun hans svo hann geti notað hana ef hann nauðsynlega þarf. Þykir það sýna að ráðning Lula í embætti hafi verið til þess að veita honum vernd frá mögulegri handtöku vegna spillingarmálsins. Mál er varða ráðherra eru aðeins tekin fyrir í hæstarétti Brasilíu. Lula þarf því ekki að svara til saka í lægri dómstól þar sem hann er kominn með ráðherrastöðu.

Upptakan olli uppþoti á brasilíska þinginu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust afsagnar forsetans hið snarasta. Um tvö þúsund manns komu saman í höfuðborg landsins, Brasilíu, og mótmæltu ráðningu Lula auk þess sem Rousseff var beðin um að stíga úr embætti. Þúsundir flykktust svo á götur Sao Paulo síðar í gærkvöld og kölluðu eftir uppsögn forsetans.

Forsetaembættið sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar birtingar upptökunnar. Þar segir að Rousseff hafi sent Lula tilskipunina þar sem hann yrði ekki í höfuðborginni til þess að taka við embættinu síðar í dag. Þannig geti hann skrifað undir tilskipunina og formlega tekið við embættinu. Þá verður krafist glæparannsóknar á vinnubrögðum Moro og mun hann þurfa að svara til saka fyrir birtingu upptökunnar.