Símon ekki vanhæfur í Marple-málinu

21.04.2017 - 18:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Símon Sigvaldason sé ekki vanhæfur til að dæma í Marple-málinu svokallaða. Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson, sakborningar í málinu, kröfðust þess að Símon yrði úrskurðaður vanhæfur þar sem hann hefði dæmt í málinu þegar það var til meðferðar hjá héraðsdómi í fyrra skiptið.. Þá voru þrír af fjórum sakborningum málsins dæmdir í fangelsi.

Hæstiréttur ógilti dóm héraðsdóms í lok febrúar þar sem Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við viðskiptafræðideild og sérfróðir meðdómari, hefði verið vanhæfur vegna ummæla og athafna á samfélagsmiðlum.

Marple-málið er því komið aftur til héraðsdóms og í byrjun apríl kröfðust verjendur Hreiðars og Magnúsar að Símon yrði úrskurðaður vanhæfur. Símon úrskurðaði sjálfan sig hæfan þann 6. apríl en verjendurnir kærðu þann úrskurð til Hæstaréttar.

Verjendur Hreiðars og Magnúsar töldu meðal annars að Símon væri vanhæfur þar sem Ásgeir Brynjar hefði verið vanhæfur. Dómurinn hefði á sínum tíma tekið afstöðu sem ein heild og þó að nýr dómari kæmi í stað Ásgeirs hefði dómurinn í heild sinni þegar tjáð sig.  Erfitt væri fyrir Magnús og Hreiðar að hagga þeirri skoðun.

Þá töldu þeir að Símon væri vanhæfur þar sem hann hefði tekið afstöðu til ummæla Ásgeirs Brynjars og ekki þótt þau aðfinnsluverð. Þá benda verjendurnir á að í Hæstarétti gildi sú regla að ef einhver dómari sé vanhæfur í máli skuli öllum dómurum skipt út ef mál er dæmt þar að nýju. Engin rök standi til þess að annað gildi fyrir héraðsdóm.

Hæstiréttur segir í dómi sínum að hafi dómari metið sönnunargildi munnlegs framburðar rangt þannig að það skipti sköpum megi hann ekki dæma aftur í sama máli sé því vísað aftur í hérað. Ef dómurinn hefur verið ómerktur af öðrum ástæðum sé ekkert því til fyrirstöðu að sami dómari leggi dóm á málið að nýju. 

 

Í Marple-málinu svonefnda er réttað yfir athafnamanninum Skúla Þorvaldssyni og þremur fyrrverandi stjórnendum hjá Kaupþingi fyrir hrun, forstjóranum Hreiðari Má Sigurðssyni, Magnúsi Guðmundssyni sem var forstjóri bankans í Lúxemborg og Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, sem var fjármálastjóri Kaupþings.

Hreiðari og Guðnýju eru gefin að sök umboðssvik og fjárdráttur með milljarða millifærslum úr Kaupþingi til félagsins Marple Holdings í Lúxemborg á árunum 2007 og 2008. Félagið var í eigu Skúla. Hann er ákærður fyrir hylmingu og peningaþvætti og Magnús er ákærður fyrir hlutdeild í brotum Hreiðars og Guðnýjar.

Héraðsdómur Reykjavíkur sakelldi Hreiðar, Magnús og Skúla í október 2015. Hreiðar fékk sex mánaða fangelsisdóm eins og Skúli en Magnús fékk átján mánuði. Guðný var sýknuð.