Símar segja til um staðsetningu ferðamanna

15.07.2017 - 14:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ferðamenn á höfuðborgarsvæðinu eru álíka margir á sumrin og veturna og árstíðarsveiflur eru stærri eftir því sem fjarlægðin frá Keflavíkurflugvelli er meiri. Þetta má sjá á símnotkun ferðamanna sem Rannsóknarsetur verslunarinnar nýtir til greiningar ferðamynsturs þeirra.

Rannsóknarsetur verslunarinnar birti nýlega gagnvirt hitakort sem lýsir dreifingu ferðamanna um landið. Kortið byggir á upplýsingum um staðsetningu og fjölda erlendra símtækja sem eru í reiki hjá Símanum og er staðsetning tækjanna skráð tvisvar á sólarhring, klukkan 03:00 og aftur klukkan 15:00, að því er fram kemur í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka. Gögnin ná frá júní 2016 til febrúar 2017.

Mynd með færslu
 Mynd: Arion banki  -  Greiningardeild Arion banka
Úr markaðspunktum greiningardeildar Arion banka

Á þessari töflu frá greiningardeild Arion banka sést að  mikill munur er á árstíðarsveiflunni eftir einstaka ferðamannastöðum. Virðist sem að á sumardögum leggi fleiri ferðamenn leið sína til Mývatnssveitar en á Þingvelli, en á hvorum stað eru 3-4% allra ferðamanna sem staddir er á landinu miðað við símnotkun.  Annað er uppi á teningnum á veturna en þá er hlutfallið 4% á Þingvöllum, en um 1% á Mývatni. Svipaða sögu má segja um aðra staði en svo virðist að því nær Keflavíkurflugvelli sem staðurinn er, því betur heldur hann velli í vinsældum yfir vetrartímann. Það samræmist ágætlega því að eftir því sem ferðamenn dvelja skemur á landinu því nær flugvellinum halda þeir sig og meðalferðamaðurinn dvelur skemur á landinu á veturna en sumrin, að því er fram kemur hjá greiningardeildinni.

Þá er bent á að áhugavert sé að skoða dreifingu ferðamanna eftir tíma dags. Í ljós kemur að ferðamenn eyða nóttinni frekar á höfuðborgarsvæðinu en nýta daginn til að skoða sig um og ferðast út á land, en 45% símtækja eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu um miðja nótt samanborið við 35% um eftirmiðdaginn. Það sama má segja um miðborgina þar sem rúmlega 20% ferðamanna dvelja á hverjum degi. Miðað við fjölda ferðamanna, dvalartíma og áætlaða stærð miðbæjararins af korti RSV eru á milli 3-5 þúsund ferðamenn á hvern ferkílómeter í miðbænum á hverri nóttu í ár, segir í markaðspunktunum.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir