Sigrún: Fyllum í skurði í stað þess að búa til

14.02.2016 - 19:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra segir fráleitt að halda því fram að fyrirhugaðar breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar um rammaáætlun séu gerðar fyrir Landsvirkjun.

Margar ábendingar ástæða breytinganna

Umsagnarfrestur um drög að breytingum á starfsreglum verkefnisstjórnar um rammáætlun rennur út 22. febrúar. Formaður verkefnisstjórnar sagði í hádegisfréttum að drögin væru væntanlega langt frá endanlegri mynd. Framkvæmdastjóri Landverndar sagði í kvöldfréttum í gær að kröfur Landsvirkjunar væru teknar upp af umhverfisráðherra og að fyrirtækið hafi haft áhrif á fyrstu drög að breytingunum í gegnum atvinnuvegaráðuneytið. VG ályktaði í gær að breytingarnar væru settar fram til að hafa að engu niðurstöðu annars áfanga rammaáætlunar. 
„Það var ekki síst út af fjölmörgum ábendingum meðal annars frá Alþingi Íslendinga sem að við hófum endurskoðun á starfsreglunum nún. Og við framlengdum um heila viku umsagnarferilinn að ósk Landverndar þannig að það er nú ekki eins og við séum að gegna erindum hérna einhverra einstakra aðila. “ segir Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra. 

Hangið eins og hundur á roði á rammaáætlun

Í ályktun VG segir að áform Landsvirkjunar um að virkja Norðlingaölduveitu, sem sé í verndarflokki, með því að kalla svæðið Kjalölduveitu og breyta lítillega útmörkum svæðisins liggi greinilega meðal annars til grundvallar tillögum ráðuneytisins. Sigrún segir þetta fráleitt: „Mér finnst það absúrd. Eins og ég gat um áðan að þá komu fjölmargir fram meðal annars frá Alþingi Íslendinga. Ég hef ekki haft neitt sérstakt samband við, eða ráðuneytið, sérstakt samband við Landsvirkjun.“
Ramminn sé samstarfsverkefni umhverfisráðuneytis og iðnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytið hafi líka sent út drögin að starfsreglum til umsagnar. 
„Þannig að þetta er í ákveðnu ferli. Og ég hef hangið eins og hundur á roði, hef ég reynt að halda í þetta verkfæri sem að Alþingi Íslendinga bjó til árið 2011. Og það hefur verið sótt að mér úr öllum áttum. Þannig að kannski getur maður þá sagt að maður sé að gera eitthvað rétt.“
Hún segir að 1. apríl hefjist kynningarfundir um landið og almennt samráðsferli.
„Getum við nú ekki beðið í sex vikur eftir að verkefnisstjórnin lýkur sinni vinnu áður en við förum í skurðina. Mér finnst menn grafa sig í skurði og nú er tískuorð að menn ættu að fylla upp í skurði aftur og ég held að menn ættu að reyna að fylla upp í þessa skurði.