Sigmundur: „Ekki leiðin til að ná árangri“

28.01.2016 - 22:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, fagnar því að Kári Stefánsson, og sem flestir landsmenn, vilji beita sér fyrir eflingu heilbrigðiskerfisins. Hins vegar sé ekki besta leiðin til að ná árangri að einskorða framlög til kerfisins við ákveðið hlutfall landsframleiðslu.

Nú hafa rétt tæplega 53.000 manns ritað nafn sitt á undirskriftarlista Kára Stefánssonar, undir yfirskriftinni Endurreisum heilbrigðiskerfið, þar sem þess er krafist að Alþingi verji árlega ellefu prósentum af vergri landsframleiðslu til reksturs kerfisins. Forsætisráðherra fagnar baráttu Kára, mjög brýnt sé að byggja heilbrigðiskerfið upp til framtíðar. Víða sé þörf í kerfinu, og hún verði það áfram.

„Það er þrátt fyrir allt núna verið að bæta meiru í heilbrigðiskerfið en við höfum dæmi um í seinni tíð. Miklu meira en nokkuð annað Evrópuland á síðasta ári eða þessu ári. Það getum við gert vegna þess að við höfum gert skynsamlegar ráðstafanir í efnahagsmálum, vegna þess að við erum búin að ná tökum á skuldum ríkisins og vegna þess að verðmætasköpun í landinu er að aukast, þannig að þá fáum við fleiri ný tæki, betri lyf, meira pláss fyrir sjúklingana og betri kjör fyrir starfsfólkið,“ segir Sigmundur Davíð í samtali við fréttastofu.

Fagnar baráttu sem flestra landsmanna

Hann segir stefna í nítján milljarða króna aukningu í málaflokkinn á milli ára og sú aukning muni halda áfram samhliða aukinni verðmætasköpun. En hefur forsætisráðherra skilning á óþoli almennings gagnvart stöðu heilbrigðiskerfisins, eins og það birtist í undirskriftasöfnuninni.

„Ég tel mjög æskilegt að menn beiti sér, sem flestir landsmenn, fyrir því að við eflum heilbrigðiskerfið. En vegna þess hvað þetta er mikilvægt mál, þá er mikilvægt að menn grípi til réttra ráðstafana, ráðstafana sem virka. Það er þess vegna sem ég benti á að það að einskorða sig við viðmiðunina landsframleiðsla, ákveðið hlutfall af henni, væri ekki endilega besta leiðin til þess að ná hámarks árangri.“  

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV