Sigmundur Davíð fer í flóttamannabúðir í dag

01.02.2016 - 15:55
Mynd með færslu
Hópur flóttamanna frá Sýrlandi sem kom hingað til lands í byrjun ársins.  Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra heimsækir flóttamannabúðir á vegum Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í Líbanon í dag.

Forsætisráðherra hélt utan til Líbanon á laugardaginn. Þar hyggst hann kynna sér aðstæður flóttamanna á svæðinu og starf stofnana SÞ og Rauða krossins. 

Á dagskrá ráðherrans í dag er fundur með framkvæmdastjóra líbanska Rauða krossins og heimsókn á heilsugæslu fyrir sýrlenska flóttamenn, sem er verkefni undir yfirskriftinni Heilsugæsla á hjólum sem Íslendingar hafa styrkt og íslenski Rauði krossinn tekur þátt í. Verkefnið veitir sýrlenskum flóttamönnum á svæðinu mikilvæga grunnheilbrigðisþjónustu. Þá mun Sigmundur Davíð eiga tvíhliða fund með forsætisráðherra Líbanon í dag til að ræða samskipti og viðskipti ríkjanna, og funda með forseta líbanska þingsins.

Loks heimsækir forsætisráðherra áðurnefndar flóttamannabúðir, og fær kynningu á starfsemi Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna. 

Heimsækir aðrar flóttamannabúðir á morgun

Á morgun mun Sigmundur Davíð heimsækja flóttamannabúðir fyrir flóttamenn frá Sýrlandi á vegum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna og funda með sérstökum sendifulltrúa SÞ fyrir Líbanon. 

Megintilgangur farar forsætisráðherra er að kynna sér aðstæður flóttamanna í Líbanon, og hvaða áhrif átökin í Sýrlandi, og gríðarlegur fjöldi flóttamanna þaðan, hafa haft á líbanskt samfélag sem og afla sér upplýsinga um hvernig alþjóðleg framlög geta best komið að liðið.

Síðar í vikunni sækir Sigmundur Davíð svo sérstakan leiðtogafund um málefni Sýrlands í Lundúnum, í boði forsætisráðherra Bretlands, Þýskalands, Noregs og Kúveit. Á fundinum verða meðal annars til umfjöllunar framlög ríkja heims til að styðja við flóttamannavandann í löndunum í kring um Sýrland, möguleikar á efnahags- og atvinnuuppbyggingu í Sýrlandi og stuðningur við menntun innan Sýrlands og meðal flóttamanna í nágrannalöndum þess.

Forsætisráðherra kynnir á fundinum framlag Íslands til aðstoðar við flóttamenn í nágrannalöndum Sýrlands fyrir árin 2015-16. Í tengslum við leiðtogafundinn fundar forsætisráðherra með forsætisráðherrum Norðurlanda í Lundúnum um fólksflutningavandann.  

Þá tekur forsætisráðherra þátt í kynningu í Sendiráði Íslands í tilefni af markaðssetningu og sölu íslensks skyrs í Bretlandi og hitta Íslendinga búsetta í London og nágrenni.

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV