Sigdældirnar eru fimm kílómetrar

28.08.2014 - 14:25
Mynd með færslu
Sigdældirnar þrjár sem sáust fyrst suðaustur af Bárðarbunguöskjunni í gærkvöld eru samtals fimm kílómetra langar. Að því er fram kemur í samantekt vísindaráðsfundar á vef Veðurstofunnar eru þetta þrjár hringlaga dældir. Líklegt er að þær séu innan vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum.

Á svæðinu þar sem þær eru er jökullinn 400 til 600 metra þykkur. Í flugi vísindamanna yfir Bárðarbungu í morgun varð ekki vart breytinga frá því í gærkvöld. Talið er að sprungurnar í jöklinum hafi myndast vegna bráðnunar við botn. 

Vatnsstaða Grímsvatna hefur hækkað

Vísindamenn hafa kannað vatnsstöðu Grímsvatna. Talið er að hún hafi hækkað um fimm til tíu metra á síðustu dögum. Það samsvarar því að 10 til 30 milljón rúmmetra af vatni hafi bæst í Grímsvötn. Talið er að vatn úr sigdældunum hafi runnið í Grímsvötn eða til Jökulsár á Fjöllum. 

Leiðni í Köldukvísl jókst örlítið í morgun. Orsök er óþekkt segir í samantekt vísindaráðs. Kaldakvísl rennur úr Köldukvíslarjökli í Vatnajökli og í gegnum Hágöngulón. Engin breyting hefur mælst í Hágöngulóni, Jökulsá eða Skjálfandafljóti. 

Skjálftavirkni jókst í Öskju

Skjálftavirkni hefur verið svipuð og undanfarna daga. Þrír stórir skjálftar urðu í Bárðarbungu um miðnætti og í morgun; tveir af stærðinni 4 og einn af stærðinni 5. Skjálftavirkni jókst lítillega í Öskju um áttaleytið í morgun. Talið er að spennubreytingar vegna gliðnunar af völdum berggangsins hafi áhrif á Öskjusvæðinu.

Berggangurinn hefur lengst um allt að einn og hálfan kílómetra síðan í gær

Berggangurinn undir Dyngjujökli hefur lengst um 1-1,5 kílómetra til norðurs síðan í gær. Það er töluvert minna en undanfarna daga. Hann er nú kominn inn í sprungusvæði Öskju og GPS-mælingar benda til þess að verulegra áhrifa gæti þar.