Síðasta landtökufólkið í Oregon gafst upp

12.02.2016 - 05:32
Armed law enforcement officers stand near a closed highway about 4 miles outside of the Malheur National Wildlife Refuge in Burns, Ore, after the last four occupiers of the national nature preserve surrendered on Thursday, Feb. 11, 2016. The holdouts were
 Mynd: AP
Síðustu vopnuðu aðgerðasinnarnir úr röðum bandarískra stórbænda, sem hertóku byggingar Malheur-náttúruverndarsvæðisins í Oregonríki í byrjun árs, gáfust upp síðdegis í gær og voru færðir í fangageymslur. Bandaríska alríkislögreglan umkringdi bækistöðvar þeirra í gærmorgun og hvatti fjóreykið sem enn hélt út til uppgjafar.

Þrjú þeirra, hjón á fimmtugsaldri og annar karl á sama reki, fóru að þeim tilmælum laust fyrir klukkan sex síðdegis, og gengu út með hendur á lofti.

Fjórði maðurinn, hinn 27 ára gamli David Fry, gaf sig ekki strax heldur sagðist vera í sjálfsvígshug og vilja „deyja sem frjáls maður.“ Frelsi eða dauði, sagði hann í beinni útsendingu á Netinu, og lýsti stríði á hendur alríkisstjórninni, sem hefði þverbrotið stjórnarskrárvarin réttindi hans. Klukkustundu síðar gafst hann þó einnig upp.

Ekki kom til neinna átaka og engu skoti var hleypt af. Malheur-náttúruverndarsvæðið, sem er einkum þekkt fyrir fjölbreytt og ríkulegt fuglalíf, er þar með laust úr hers höndum, 41 degi eftir að það var hertekið.