Sheeran og Stormzy keppa til verðlauna í kvöld

Kate Tempest
 · 
Mercury verðlaun
 · 
Stormzy
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
epa06050583 British singer Ed Sheeran performs at the Glastonbury Festival of Contemporary Performing Arts 2017 at Worthy Farm, near Pilton, Somerset, Britain, 25 June 2017. The outdoor festival runs from 21 to 25 June. EPA/NIGEL RODDIS
Margir telja grime-rapparann Stormzy sigurstranglegan.  Mynd: Samsett mynd/rúv  -  EPA

Sheeran og Stormzy keppa til verðlauna í kvöld

Kate Tempest
 · 
Mercury verðlaun
 · 
Stormzy
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
14.09.2017 - 17:50.Davíð Roach Gunnarsson
Í kvöld verða bresku Mercury-verðlaunin afhent í 26. skipti og eru tólf listamenn tilnefndir fyrir plötur sínar; þar á meðal hjartaknúsarinn Ed Sheeran, indíbandið The xx og rapparinn Stormzy.

Talsverður styr stendur þó um tilnefningarnar í ár og þykir mörgum verðlaunin vera komin ansi langt frá uppruna sínum. Verðlaununum var komið á koppinn árið 1992 sem mótvægi við stór bransaverðlaun eins og Brit-verðlaunin. Áhersla Mercury-verðlaunanna hefur yfirleitt verið á minna þekkta listamenn og ferskari geira, þó svo allar breiðskífur eftir breska listamenn eða hljómsveitir þar sem meira en helmingur meðlima er breskur, séu gjaldgengar.

Allir geirar eiga möguleika

Þau eru líka ólík mörgum öðrum verðlaunum að því leyti að allir geirar tónlistar eru undir; frá nýklassík til rapps. Milli tíu og tólf plötur eru tilnefndar á hverju ári af dómnefnd sem samanstendur af tónlistarmönnum, upptökustjórum, blaðamönnum, útgefendum, tónleikahöldurum og öðru bransafólki, og ein þeirra hlýtur svo verðlaunin og 20.000 punda verðlaunafé.

Það mætti segja að á Screamadelica hafi rokkið og reif-menningin mæst í fyrsta skiptið á einni breiðskífu.

Það var platan Screamadelica með skosku hljómsveitinni Primal Scream sem hlaut fyrstu Mercury-verðlaunin en hún er ein margra verðlaunaplatna frá 10. áratugnum sem hafa staðist tímans tönn; af öðrum má nefna Dummy með Portishead, Different Class með Pulp og New Forms með Roni Size/Reprazent. Þá hafa verðlaunin fallið í skaut PJ Harvey, Dizzee Rascal, Franz Ferdinand, Anthony and the Johnsons, Artic Monkeys, Klaxons, The xx og James Blake í gegnum tíðina.

Oft hefur verðlaunaveitingin verið djörf og framsækin eins og þegar „drum 'n' bass“ meistarverkið New Form varð hlutskarpast árið 1997.

Ed Sheeran skýtur skökku við

Þó stundum hafi nafnkunnir tónlistarmenn verið tilnefndir – til að mynda hefur David Bowie verið tilnefndur þrisvar og Radiohead fimm sinnum – þá hafa verðlaunin yfirleitt verið veitt nýjum og spennandi listamönnum sem eru að gefa út sína fyrstu eða aðra plötu. Að hljóta tilnefningu eða verðlaunin hefur oft gefið lítt þekktum böndum aukna athygli og sölu sem þau hefðu annars ekki fengið. Þess vegna þykir mörgum skjóta skökku við að í ár sé Ed Sheeran tilnefndur, einn allra vinsælasti tónlistarmaður heims sem gerir auðmelta popptónlist og hefur fengið næga viðurkenningu hjá meginsstraumsverðlaunum eins og Grammy, Billboard og Brit.

Kate Tempest þykir sigurstrangleg.

Æpandi yfirsjónir

Blaðamaður Guardian, Alexis Petridis, segir að dómnefndinni mistakist algjörlega með tilnefningunum að varpa kastljósi á það ferskasta í breskri tónlist síðasta árs. Hann telur dómnefndina af skyldurækni tilnefna ákveðið hlutfall gítardrifins indírokks þrátt fyrir að árið hafi boðið upp á lítið spennandi í þeirri deild. Þá séu æpandi yfirsjónir nefndarinnar plötur með Lauru Marling, Sleaford Mods og Gorillaz, þó talið sé að hinir síðastnefndu hafi skemmt nokkuð fyrir sér þegar þeir afþökkuðu tilnefningu sem þeir fengu fyrir sína fyrstu plötu árið 2001. 

Breskt „grime“-rapp hefur átt miklum vinsældum að fagna undanfarið en Skepta hlaut Mercury verðlaunin í fyrra auk Dizzee Rascal árið 2003, fyrir sína fyrstu plötu.

Í fyrra var það breski grime-rapparinn Skepta sem hlaut verðlaunin og margir telja „starfsbróður hans“ Stormzy sigurstranglegan í ár en plata hans Gang Signs & Prayer fékk fádæma góðar viðtökur gagnrýnenda þegar hún kom út í febrúar. Önnur plata sem þykir eiga góða möguleika er Let Them Eat Chaos með Kate Tempest; einhvers konar rapp/ljóðalestur um borgarlíf London yfir raftöktum sem eru mitt á milli hiphops og dub-step. Ekki ósvipað nútímalegri, pólitískari (og kvenlegri) útgáfu af Mike Skinner (The Streets), sem var einmitt tilnefndur 2002 fyrir sína fyrstu plötu, Original Pirate Material (og hefði átt að vinna).

Sampha vakti mikla athygli þegar stórstjarnan Drake notaði bút úr lagi hans Too Much.

Annað sem vert er að minnast á er Dinosaur, sem þó þykja ekki líklegir til sigurs. Þrátt fyrir að nafninu til eigi allar stefnur jafna möguleika hafa djassgeggjarar ekki riðið feitum hesti frá Mercury hingað til. Dinosaur er leidd af trompetleikaranum Lauru Jurd sem á Together, as One byggir af fádæma spilagleði ofan á rokkdjassarfleiðina sem Miles Davis lagði grunninn að á Bitches Brew. Þá hafa sumir spáð söngvaranum Sampha góðu gengi en á plötu sinni blandar hann saman sálartónlist, elektróník og lífrænum hljóðfæraleik á hugvitsamlegan hátt. 

En eitt af einkennum Mercury-verðlaunanna hefur líka verið óútreiknanleikinn. Það skyldi þó ekki fara þannig að í viðleitni sinni til að fara gegn hefðum „óháðu verðlaunanna“, skyldi vinsælasti tónlistarmaður heims, Ed Shearan, hljóta þau?

Mercury-verðlaunin verða afhent í kvöld en eftirfarandi plötur eru tilnefndar:

 • alt-j - Relaxer

 • Blossoms - Blossoms

 • Dinosaur - Together, As One

 • Ed Sheeran - ÷

 • Glass Animals - How to Be a Human Being

 • J Hus - Common Sense

 • Kate Tempest - Let Them Eat Chaos

 • Loyle Carner - Yesterday's Gone

 • Sampha - Process

 • Stormzy - Gang Signs & Prayer

 • The Big Moon - Love in the 4th Dimension

 • The xx - I See You

Tengdar fréttir

Tónlist

Þema plötunnar má rekja til forns kveðskapar

Tónlist

Mercury tilnefningar tilkynntar í gær