Sharapova féll á lyfjaprófi

07.03.2016 - 21:16
epa05199966 (FILES) Maria Sharapova of Russia reacts during a training session prior the Australian Open Grand Slam tennis tournament at Melbourne Park, in Melbourne, Australia, 16 January 2016. Maria Sharapova revealed that she failed a drug test being
Maria Sharapova frá Rússlandi.  Mynd: EPA  -  EPA FILE
Tenniskonan Maria Sharapova greindi frá því í dag að hún hefði fallið á lyfjaprófi er hún var við keppni á Opna ástralska meistaramótinu. Sharapova, sem var um tíma besta tenniskona heims, hefur tekið inn lyfið meldonium sem var sett á bannlista í upphafi árs. Sharapova hefur notað lyfið um nokkurra ára skeið til að halda niðri flensueinkennum og vissi ekki að lyfið væri komið á bannlista.

„Ég féll á prófinu og tek fulla ábyrgð á því. Undanfarin tíu ár hef ég tekið inn lyf að nafni mildronate sem ég hef fengið ávísað af fjölskyldulækni. Fyrir nokkrum dögum fékk ég bréf frá Alþjóða tennissambandinu og þá komst ég að því að þetta lyf heitir einnig meldonium sem ég vissi ekki,“ sagði Sharapova í dag.

Sharapova hefur unnið fimm stórmót á ferlinum og sló eftirminnilega í gegn árið 2004 þegar hún sigraði á Wimbledon mótinu aðeins 17 ára gömul. Refsing Sharapovu hefur ekki verið ákveðin en hún vonast til að þetta séu ekki endalokin á ferli hennar.

„Ég hef gert mjög stór mistök. Ég hef brugðist aðdáendum mínum og brugðist íþróttinni sem ég elska og stundað frá því að ég var fjögurra ára gömul. Ég veit að ég þarf að axla ábyrgð á gjörðum mínum en ég vona að þetta sé ekki endirinn á ferlinum. Ég vonast eftir að fá annað tækifæri.“

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður