Sex persónur ... fagna höfundi

09.06.2017 - 16:20
Sigurbjörg Þrastardóttir er á útiskónum í góða veðrinu og hugur hennar er hjá ítalska rithöfundinum og leikskáldinu Pirandello.

 

Sigurbjörg Þrastardóttir skrifar:

Góðir hlustendur, ég er þremur vikum á undan áætlun hér en það skiptir litlu sem engu í stóra samhenginu, ég vildi bara benda ykkur á að í lok júní verða 150 ár liðin frá fæðingu leikskáldsins og rithöfundarins Luigi Pirandello. Þetta er kannski ekki stórfrétt, en, einn daginn kemur t.d. að því að við þurfum sjálf að halda upp á 150 ára Nóbelshöfundarafmæli og hvernig ætlum við að fara að því?

Evrópska Pirandello-miðstöðin fer í öllu falli þannig að því að ráðstefnuröð um arfleifð Pirandello verður haldin í einum tólf borgum hér og þar um veröldina, m.a. í Philadelphiu, Zürich, Jóhannesarborg, New York, München, Dyflinni og Róm, en í Róm bjó Pirandello einmitt síðustu ár ævi sinnar, eða þar til hann fékk lungnabólgu á tökustað þar sem verið var að filma mynd eftir einni af skáldsögum hans, Il Fu Mattia Pascal, og lést í kjölfarið, 69 ára að aldri.

 

LR með á nótunum

Fyrir þá sem ekki hafa hugsað um Pirandello um hríð, eða hafa kannski ekki heyrt um hann fyrr, þá hlaut hann Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1934, fyrir það sem akademían taldi „töfrandi lagni við að umbreyta sálgreiningu í gott leikhús“, eða – eins og sagði líka í umsögninni – fyrir „hugrakka og hugvitssamlega framsetningu á list leikhússins og dramatíkurinnar“. Hann er enda hvað þekktastur fyrir leikverk sín, þótt hann hafi líka skrifað heilu fjöllin af smásögum og alls ekki fáar skáldsögur heldur.

Eitt nafntogaðasta leikverk Pirandello er Sei personaggi in cerca d’autore, sem á íslensku er bæði þekkt sem Sex persónur leita höfundar og Sex persónur í leit að höfundi – og jafnvel undir titlinum Sex verur leita rithöfundar eins og það hét þegar það var fyrst sett upp hjá Leikfélagi Reykjavíkur árið 1926 í þýðingu Guðbrands Jónssonar. Já, ég sagði árið 1926, aðeins fimm árum eftir að verkið var skrifað og ári eftir að það kom út á bók á Ítalíu. Leikstjóri þessarar frumuppfærslu á Íslandi var Indriði Waage og óhætt að segja að menn hafi verið með á nótunum með uppsetningu á svo nýstárlegu, og umdeildu verki, en það hlaut misjafnar viðtökur í Róm í blábyrjun.

Áhorfendur í Mílanó voru hins vegar snöggtum jákvæðari – það var svo eftir að Pirandello bætti við upplýsandi formála sem verkið fékk vængi.

 

Frumlegasta leikverk allra tíma

Leikritið Sex persónur í leit að höfundi fjallar um nákvæmlega það sem titillinn vísar í, um sex persónur sem birtast á sviði, þar sem verið er að æfa annað leikrit, í því skyni að finna höfund sem getur komið sögu þeirra á framfæri. Verkið afhjúpar í senn möguleika og takmarkanir leikhússins og veltir upp spurningum um það hvort birtingamyndir þess sem leikhúsið vill segja birti í reynd kjarna þess sem lagt er upp með. Svona ef hægt er að sjóða viðfangsefni heillar sýningar niður í eina línu – sem auðvitað er ekki hægt.

„Frumlegasta og dýnamískasta leikverk sem ritað hefur verið með nokkurri þjóð á nokkrum tíma, hvort heldur er í fornöld eða nútíma,“ – var haft eftir G.B. Shaw um verkið, svo dæmi sé tekið, og almennt er Ítalinn Luigi Pirandello álitinn í hópi mestu áhrifavalda á þróun evrópskrar leikritunar á 20. öld.

Samtöl Pirandellos við skáldaða karaktera einskorðast reyndar ekki við þetta fræga leikverk. Til er smásaga eftir hann sem ber titilinn Harmleikur persónunnar, og segir frá höfundi sem stendur í því alla sunnudaga, frá klukkan átta til eitt, að spjalla við ágenga karaktera væntanlegra smásagna sinna. Þær sessjónir taka verulega á, enda er þetta er meira og minna „skelfilegur félagsskapur“ að sögn höfundarins – og „oftar en ekki eitthvert óánægðasta fólk veraldar“. Á sama tíma þarf höfundurinn að passa sig á því að tala ekki of illa um karakterana sem mæta til hans, þá viðbúið að orðspor hans skaðist, auk þess sem sumir þeirra móðgast ef þeim er ekki sinnt og banka þá bara upp á hjá næsta höfundi.

Já, það er vandlifað í heimi skáldskaparins. Pirandello var sjálfur eitt sinn spurður að því hvenær og hvernig hugmyndin að persónunum í Sex persónur leita höfundar hafi kviknað og fannst allt annað en auðvelt að svara því. Hann greip til samlíkingar við þungun – að sumu leyti einkennilegt, en við skulum taka viljann fyrir verkið – og sagði eitthvað á þá leið að kona, sem yrði þess áskynja að hún gengi með barn, gæti kannski ekki endilega sagt nákvæmlega til um það hvenær það líf hefði kviknað. „Hið sama á við,“ sagði Pirandello, „um listamanninn, sem safnar til sín óteljandi frævum, en getur samt aldrei sagt hvernig, hvers vegna eða á hvaða stundu einhver þessara lífeinda nær fótfestu í ímyndunarafli hans og verður að lifandi veru [sem þrífst á plani handan okkar rokgjörnu og hégómlegu hversdagstilveru]. Ég get bara sagt að án þess að ég hafi sérstaklega leitað eftir því voru þær allt í einu mættar, þessar sex persónur sem nú hafa ratað á svið, svo raunverulegar að mér fannst ég geta snert þær, svo raunverulegar að ég gat næstum heyrt þær anda.“

 

Hver er maður – í raun?

Spursmál sem varða form og inntak setja mikinn svip á höfundarverk Pirandello, og fleiri tvenndir má líka ræða. Á ráðstefnum afmælisársins má nefna þemu eins og nærveru og fjarveru í verkum hans, huglæga staði og raunveruleg rými, o.s.frv.

Októberráðstefnan í Dyflinni rannsakar svo eyjuna í lífi Pirandello, og viðbúið að einhverjir þar muni vitna í fræg orð hans sjálfs um eyjuna hið innra: „Ég er fæddur á Sikiley og þar fæðist maðurinn eyja á eyju og heldur þeirri stöðu til dauðadags, sama þótt hann flytji langt frá hinni hrjúfu fósturmold sem er umlukin ómældu, öfundsjúku hafi.“

Þá er ótalið eitt helsta rannsóknarefnið sem einhvers staðar hlýtur að verða tekið fyrir, sjálf gríman, en grímur, karíkatúr og ásýnd eru Pirandello afar hugleikin viðfangsefni. Það tengist togstreitunni milli forms og inntaks, en hefur líka allt að gera með hlutverkin sem við leikum í samfélaginu. Enrico IV, Hinrik IV, er eitt af leikverkunum sem fellur að þessum pælingum, en dæmin eru svo víða að gjarnan er þetta álitin hin augljósa heimspeki Pirandello: að við séum aldrei við sjálf, heldur einungis það sem aðrir sjá okkur sem. Sjálfur valdi hann safni leikrita sinna yfirtitilinn Maschere Nude, eða Berar grímur, sem mörgum þykir raunar bera vitni því pessimíska viðhorfi að ekki einasta séum við ekkert nema samansafn mismunandi gríma, sem við berum við mismunandi tækifæri, heldur að á bak við grímurnar sé ekkert nema tómið. Um þetta má auðvitað nota árið til að deila.

Og meðfram því munu svo einhverjir skiptast á skoðunum um stöðu leikkonunnar Mörtu Abba í æviverki Pirandello, en Marta var aðalleikonan í síðustu verkum höfundarins og nýleg kenning gengur út á að hún hafi í senn verið músa og ástkona – að hann hafi „elskað hana“ í gegnum leikritaskrifin. Þetta er m.a. byggt á nýbirtum bréfum og viðtölum við Mörtu. Í veruleikanum var Pirandello hins vegar giftur konu sem foreldrar hans völdu, og lifði svo hefðbundnu hversdagslífi að það var engu líkara en að sjálf hans væri ekki aðeins tvöfalt – maður og listamaður – heldur væri það, líkt og hjá persónum hans (og sennilega okkur öllum) margklofið, tvístrað og leitandi.

 

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi