Sex lög keppa í Söngvakeppninni í kvöld

06.02.2016 - 13:08
Mynd með færslu
 Mynd: Credits: Thomas Hanses (EBU)  -  Eurovision.tv
Fyrri undankeppnin í Söngvakeppninni 2016 hefst í Háskólabíói klukkan 20 í kvöld og verður sýnd í beinni útsendingu í Sjónvarpinu. Í kvöld verða flutt fyrstu sex lögin af tólf sem keppa um að komast í úrslitaþáttinn, þar sem framlag Íslands í Eurovision-söngvakeppninni verður valið. Hún verður haldin í Stokkhólmi í maí.

Keppnin verður með óvenju glæsilegu sniði í ár af því tilefni að nú eru 30 ár liðin síðan Íslendingar tóku fyrst þátt í Eurovision.

Lögin sem keppa í undankeppninni í kvöld eru hér fyrir neðan og hægt er að hlusta á þau með því að smella á titil þeirra:

Ég sé þig, í flutningi Hljómsveitarinnar Evu. 
Lag og texti er efitir Jóhönnu Völu Höskuldsdóttur og Sigríði Eir Zophoníasardóttur. 

Fátækur námsmaður, í flutningi Ingólfs Þórarinssonar, sem jafnframt á lag og texta. 

Hugur minn er, í flutningi Ernu Hrannar Ólafsdóttur og Hjartar Traustasonar.
Höfundur lags og texta er Þórunn Erna Clausen. 

Kreisí, í flutningi Sigríðar Eyrúnar Friðriksdóttur. 
Karl Olgeirsson samdi lagið og textann sömdu þau Sigríður saman. 

Óstöðvandi í flutningi Karlottu Sigurðardóttur. 
Höfundar lagsins eru Kristinn Sigurpáll Sturluson, Linda og Ylva Persson.
Textann samdi Karlotta Sigurðardóttir. 

Raddirnar, í flutningi Gretu Salóme Stefánsdóttur, sem jafnframt samdi lag og texta. 

Seinni undankeppnin fer fram í Háskólabíói 13. febrúar en úrslitakeppnin verður í Laugardalshöll 20. febrúar.  

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Erla  -  RÚV

Skemmtiatriði kvöldsins verða ekki af verri endanum. 101 boys (Sturla Atlas, Logi Pedro, Jóhann Kristófer og Unnsteinn Manuel) ætla að flytja lagið Gleðibankann eftir Magnús Eiríksson í sinni eigin útsetningu.  Páll Óskar stígur svo á svið og flytur nýtt afmælislag Söngvakeppninnar sem nú þegar hefur slegið í gegn og ber heitið Vinnum þetta fyrirfram

Kynnar keppninnar verða þær Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Guðrún Dís Emilsdóttir.

 

 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV