Sex lagðir inn á gjörgæslu út af flensu

22.02.2016 - 16:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Inflúensan sem nú er að ganga er það skæð að leggja hefur þurft sex inn á gjörgæsludeild. Flestir þeirra hafa legið inni í stuttan tíma, segir Ólafur Guðlaugsson, sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítalanum. Flensan leggi bæði hrausta og þá sem veikir eru fyrir.

Fyrstu flensutilfellin byrjuðu að greinast fyrir tæpum fjórum vikum og þeim fer fjölgandi eftir því sem líður á faraldurinn. Flestir liggja lasnir í viku en þeir sem verða veikari liggi lengur fyrir. Ólafur Guðlaugsson sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítalanum, segir að ekki sé hægt að spá fyrir um hvenær toppinum verði náð, þó líklega sé hann ekki langt undan. 

Flensan geti „sýnt í sér tennurnar“

„Inflúensa er alltaf alvarlegur sjúkdómur og svo koma alltaf ný afbrigði á hverju ári þannig að við vitum aldrei nákvæmlega á hverju við eigum von. Í ár virðist hún að minnsta kosti geta sýnt í sér tennurnar af og til þannig að það hefur þurft að leggja líklega eina sex inn á gjörgæsludeild, flesta í skamman tíma en nokkrir hafa þurft lengri stuðning við.“

Af þessum sex hafi sumir verið veikir fyrir en aðrir hafi verið hraustir. „Það eru ákveðnar vísbendingar um að þessi flensa sér örlítið verri en þessi sem við fengum í fyrra til dæmis. Samt virðast flestir sigla í gegnum þessa sýkingu án veikinda.“

Bólusetningin dugi óvenju vel

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að flensan sem nú er að ganga sé angi af svínainflúensunni sem varð að heimsfaraldri árið 2009. Alltaf komi upp alvarleg veikindi í flensutíð. Þess vegna sé mælt með bólusetningu. Veiran breyti sér frá ári til árs og þess vegna þurfi að fara árlega í sprautu. 

Ólafur segir að enginn sem hafi fengið bólusetningu hafi veikst alvarlega. Bólusetningin virðist því gagnast vel gegn þessu afbrigði. „Hún virðist nefnilega duga óvenju vel í ár. Þannig að eru bara átta prósent af þeim sem við höfum séð með inflúensu sem hafa verið bólusettir sem er mjög ásættanlegt hlutfall.“

Svínaflensan er af H1N1-stofni, hinum sama og varð til þess að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti yfir heimsfaraldri sumarið 2009. Alls létust þá 18.500 í 214 löndum. Faraldurinn stóð yfir fram í ágúst 2010. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV