Sex heimilisofbeldismál tilkynnt lögreglu

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust sex tilkynningar um heimilisofbeldi í gærkvöldi og nótt. Áverkar þolenda eru misalvarlegir, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu. Þar kemur fram að gerendur hafi í þremur tilfellum verið handteknir og færðir í fangageymslu. Í hinum tilfellunum þremur voru fantarnir farnir af vettvangi þegar lögregla kom að. Haft verður uppi á þeim síðar, að sögn lögreglu.

Um hálf fimm í nótt var ölvaður maður handtekinn í Austurborginni, grunaður um að hafa hótað fólki og ógnað því með hnífi. Hann var færður í fangageymslu og er málið í rannsókn. Alls voru 50 mál færð í dagbók lögreglu frá því í gærkvöld til klukkan fimm í morgun. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV