Sex ára telpa fannst eftir 14 tíma leit

16.07.2017 - 23:11
Mynd með færslu
Fjöldi sjálfboðaliða tekur þátt í leitinni, þar á meðal hópur veiðimanna sem þekkir vel til á leitarsvæðinu  Mynd: SVT
Sex ára stúlka sem varð viðskila við fjölskyldu sína í skógi vaxinni fjallshlíð í sænskum þjóðgarði við Helsingjabotn laust fyrir hádegi í dag, er fundin, heil á húfi. Sérþjálfuð leitarsveit með sporhunda fann stúlkuna, sem nú er komin í faðm himinlifandi fjölskyldu sinnar. Hátt í annað hundrað manns tóku þátt í leitinni, þar sem bæði hundar og þyrlur komu við sögu.

Stúlkan varð viðskila við fjölskyldu sína í fjallshlíð utan við bæinn Hudiksvall við Helsingjabotn, norður af Stokkhólmi laust fyrir hádegi á sunnudag. Fjölskyldan var á leið niður frá útsýnisstað í hlíðinni þegar stúlkan dróst aftur úr eða villtist af leið án þess að aðrir fjölskyldumeðlimir yrðu þess varir. Fjölskyldan hóf leit þegar í stað og hringdi fljótlega eftir hjálp.

Langt á annað hundrað manns tóku þátt í leitinni og undir kvöld bættust þyrlusveit, sporhundasveit og sérþjálfuð fjallabjörgunarsveit í hópinn. Lögregla stöðvaði leitina um kvöldmatarleytið þegar fregnir bárust af því að björn væri á þvælingi á leitarsvæðinu, sem er í skógi vöxnum þjóðgarði. Leit hófst aftur klukkustundu síðar þegar nokkuð tryggt þótti, að enginn björn væri á ferli, og stendur enn. Leitarskilyrði voru ekki eins og best verður á kosið, síðdegis tók að rigna og svo lagðist myrkrið yfir með kvöldinu. 

Klukkan rúmlega eitt í nótt að sænskum tíma bárust svo tíðindi af því að sporhundar hefðu þefað stúlkuna uppi, nær fjórtán tímum eftir að hún hvarf, og reyndist sú stutta heil á húfi. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV