Sex ár frá hamförunum á Haítí

12.01.2016 - 21:44
epa04557309 A family prepares food in a shanty house in Port-au-Prince, Haiti, 12 January 2015. 12 January 2015 marks the fifth anniversary of the earthquake which killed more than 200.000 people in Haiti.  EPA/Jean Jacques Augustin
Enn búa margir í tjaldbúðum í Port-au-Prince, sex árum eftir að skjálftinn mikli reið þar yfir.  Mynd: EPA  -  EFE
Íbúar Haítí minntust þess í dag að sex ár eru síðan mikill jarðskjálfti reið þar yfir og um 200.000 manns fórust. Um allt land var flaggað í hálfa stöng og Michel Martelly forseti og Evans Paul forsætisráðherra lögðu blómsveig við fjöldagröf skammt utan höfuðborgarinnar Port-au-Prince.

Stjórnvöld hafa sætt mikilli gagnrýni og uppbygging ekki sem skyldi. Kenna margir um pólitískum glundroða í landinu og kólerufaraldri sem þar geisaði um hríð. Allt að 60.000 manns eru enn án heimilis og dvelja í tjaldbúðum.

Nýr forseti tekur brátt við á Haítí, en gert er ráð fyrir að síðari umferð forsetakosninga fari fram 24. þessa mánaðar. Jovenel Moise fékk flest atkvæði í fyrri umferðinni, en hann nýtur stuðnings Martellys, fráfarandi forseta. Keppinautur hans er Jude Celestin.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV