Settu upp ólöglegar öryggismyndavélar í blokk

23.08.2017 - 07:03
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Íbúum í blokk einni hér á landi var óheimilt að fjölga eftirlitsmyndavélum í húsinu til að koma í veg fyrir innbrot. Þetta er niðurstaða Persónuverndar, sem úrskurðaði að þessar fyrirætlanir hefðu ekki verið kynntar nægilega vel fyrir öllum íbúum. Auk þess hefði ekki verið löglega boðað til húsfundar þar sem fjölgun myndavélanna var samþykkt eftir á.

Ekki kemur fram í úrskurðinum hvar blokkin sem málið snýst um er, en þó segir að í henni séu 67 eignarhlutar. Einn íbúa hússins kvartaði til Persónuverndar fyrir tæpu ári og sagði að í bílakjallara hefðu áður verið fjórar eftirlitsmyndavélar. „Nú þegar eru komnar 9 eftirlitsmyndavélar um alla sameign,“ sagði í kvörtuninni.

Hinar vélarnar fjórar hafi átt að koma í veg fyrir innbrot í bílageymsluna en húseignin sé hins vegar vel varin fyrir innbrotum „enda þyrfti þjófur að brjóta niður 3-5 hurðir til að komast inn,“ segir í kvörtuninni. „Innbrot hefur ekki verið framið í íbúð þarna í áratugi. Ekki þarf myndavélar í bílageymslu, þar fer enginn inn ef bílstjórar bíða eftir að hurð lokist.“

Ekki lengur tengdar í sjónvarpskerfi alls hússins

Í svari húsfélagsins segir að fjórar myndavélar hafi verið settar upp í húsinu „í öryggis- og eignavörsluskyni“ árið 2003. „Þessar myndavélar hafi frá upphafi verið tengdar við sjónvarp í íbúð húsvarðar auk þess sem tvær þeirra hafi verið tengdar beint við sjónvarpskerfi hússins þannig að allir íbúar hafi getað fylgst með inngöngum [...] í beinni útsendingu allan sólarhringinn.“

Árið 2016 hafi verið ákveðið að fjölga vélunum á grundvelli mats öryggisfyrirtækis. „Niðurstaða matsins hafi verið að þörf væri fyrir myndavélar við alla fimm inngangana í húsið. Þá þyrfti tvær vélar til að vakta reiðhjól sem geymd væru í bílageymslu, eina myndavél við dekkjageymslu og eina myndavél við uppgang úr bílageymslu. Engin sjónvarpsvöktun eigi sér stað nú og upptökur séu ekki skoðaðar nema innbrot eða skemmdarverk eigi sér stað, en þær séu þá sendar lögreglu,“ segir í svarinu.

Upptökum sé eytt eftir um mánuð og þótt fullyrðing kvartanda um að ekki hafi verið framið innbrot í íbúð í húsinu kunni að vera rétt sé tilgangur vöktunarinnar ekki beinlínis að vakta íbúðir heldur sameignina. „Einungis þurfi að komast inn um einar dyr til þess að komast inn í sameign, bílageymslu, dekkjageymslu og reiðhjólageymslu.“

Þá segir í svarinu að rækilegar merkingar um að myndavélar séu í húsinu megi finna við alla innganga og hurðir. Auk þess hafi almenn kynning á endurnýjun myndavélakerfisins farið fram á Facebook-síðu húsfélagsins en til að taka af allan vafa verði boðað til nýs húsfundar þar sem leitað verði samþykkis fyrir fjölguninni á nýjan leik. Í úrskurðinum segir að sá fundur hafi verið haldinn 29. mars og þar hafi fjölgunin fengist samþykkt.

Facebook-færsla og veggmerkingar ekki nóg

Persónuvernd er þó enn ekki sátt, eins og segir að framan. Í niðurstöðu hennar segir að ekkert liggi fyrir um það að lögmæt ákvörðun hafi verið tekin innan húsfélagsins um fjölgun vélanna áður en þær voru settar upp. Kynning á Facebook-síðu sem ekki allir íbúar hafi aðgang að sé ekki nægileg, og það séu merkingar á veggjum um myndavélarnar ekki heldur.

Þá hafi fundarboðið á fundinn í mars ekki uppfyllt skilyrði, enda hafi ekki verið tekið fram í því að til stæði að greiða atkvæði um þetta mál. Þess vegna brjóti vélarnar gegn persónuverndarlögum. Ekkert er fjallað um það í úrskurðinum til hvaða aðgerða húsfélagið skuli grípa í kjölfarið.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV