Setrið fékk Menntaverðlaun Suðurlands

16.01.2016 - 00:03
Mynd með færslu
 Mynd: SASS  -  RÚV
Sérdeild Suðurlands, Setrið, sem starfar í Sunnulækjarskóla á Selfossi, hlýtur Menntaverðlaun Suðurlands fyrir árið 2015. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti Kristínu Björk Jóhannsdóttur deildarstjóra verðlaunin á Hátíðarfundi Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi í gær.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga standa að verðlaununum, sem meðal annars fela í sér 250 þúsund króna fjárstyrk. Samtökunum bárust fjórar tilnefningar, en sérstakur starfshópur fjallar um þær og velur sigurvegara. Í greinargerð hópsins segir að Setrið, Sérdeild Suðurlands, hafi á undanförnum árum staðið að framúrskarandi framlagi á sviði menntunar á Suðurlandi. Hún hafi veitt fjölmörgum nemendum með sérþarfir kennslu og mikilvæga þjónustu. Staðsetning deildarinnar í Sunnulækjarskóla hafi sett sinn brag á skólastarfið og gert að verkum að fjölbreytileiki allra nemenda fái að njóta sín á jákvæðan hátt. Setrið starfar eftir þjónustusamningi sveitarfélaga á Suðurlandi.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV