Setja þurfi hæfisskilyrði fyrir eigendur banka

21.01.2016 - 20:30
„Það sem stendur eftir er að botna umræðuna annarsvegar um það hvernig við getum komið í veg fyrir að einhverjir kúrekar komi og eignist bankana, sem eru ekki nægilega hæfir til að fara með stóran eignarhlut í kerfislega mikilvægum banka,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.Taka þurfi til sérstakrar skoðunar að setja sérstök hæfisskilyrði ef menn vilji fara yfir ákveðin eignamörk í íslensku bönkunum.

Rætt var við Bjarna í Kastljósi í kvöld. Hann segir að verulegar breytingar hafi verið gerðar á bankakerfinu á undanförnum árum. „Ég nefni bara sem dæmi að þegar Landsbankinn var seldur á sínum tíma var eigið fé hans 16 miljjarðar; það er 240 til 250 milljarðar í dag. Arðurinn sem kom á síðasta ári er eins og allt söluverðið á sínum tíma, eða því sem næst.“

Bjarni segir að eigið fé bankans sf hærra meðal annars vegna þess að kröfunum hafi verið breytt á undanförnum árum, bæði vegna áherslna sem samstaða hafi náðst um hér á landi en einnig vegna breytinga sem orðið hafi á evrópska regluverkinu.  

Talað hefur verið um að aðskilja þurfi fjárfestingahluta bankanna og viðskiptabankastarfsemi. „Þar þurfa að vera girðingar umfram það sem við höfðum áður. Ég tel að sumt af því sem við höfum nú þegar innleitt svari áhyggjum manna þar en ég er með það til sérstakrar skoðunar hversu langt við getum gengið til viðbótar til þess að tryggja að innstæður Íslendindinga, viðskiptabankahlutinn, sé ekki notaður að veði fyrir áhættusamar fjárfestingar á fjárfestingabankahliðinni.“

Bjarni telur að umgjörðin sé komin að langmestu leyti. Ekki sé ástæða til að skilja á milli viðskiptabankahlutans og fjárfestinga að fullu. „Fullur aðskilnaður held ég að geti reynst óþarfur og reyndar í vissum tilvikum kannski skaðlegur. En ef við getum eytt áhættunni, þá erum við að ná sömu markmiðum, það er að segja að menn spilli ekki eða helli ekki áhættunni á milli þessara liða.“

Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir því að Landsbankinn verði gerður að samfélagsbanka. Bjarni segir að sér lítist illa á slíkar hugmyndir. „Samfélagsbankahugmyndin myndi, eins og ég sé þetta, hríðfella verðið á Landsbankanum ef breyta ætti honum í banka sem ekki ætti að reka með arðsemissjónarmiði og það geti verið ýmsar samkeppnislegar hindranir í veginum. Ég ætla bara að segja það alveg hreint út. Mér líst bara ekki vel á hugmyndina. Mér finnst að bankar eigi að vera bankar.“ Þeir eiga að þjóna heimilunum og atvinnulífinu í virku samkeppnisumhverfi „Og í því umhverfi tel ég að við fáum bestu heildarniðurstöðuna.“ 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV