Sessions: Forgangsmál að handsama Assange

21.04.2017 - 08:16
epa05145031 WikiLeaks founder Julian Assange speaks to the media from a balcony of the Ecuadorian Embassy in London, Britain, 05 February 2016. Assange hailed a UN panel's finding that he is under arbitrary detention on 05 February, urging Britain
Assange kynnir niðurstöðu rannsóknarnefndar á vegum Mannréttindastjóra Sþ, þar sem segir að bresk og sænsk yfirvöld haldi honum í raun í ólögmætri fangavist með framkomu sinni gagnvart honum.  Mynd: EPA
Bandarísk yfirvöld líta á það sem forgangsmál að handtaka Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Þetta segir Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Fullyrt er að saksóknarar vestanhafs hafi fundið leið til að ákæra Assange en hingað til hefur fyrsti viðauki bandarísku stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi vafist fyrir þeim.

„Við ætlum að herða baráttuna gegn lekum og erum þegar byrjuð að herða hana,“ sagði Sessions á blaðamannafundi í gærkvöldi þegar hann var spurður hvort það væri í forgangi hjá stjórnvöldum að hafa hendur í hári Assange. Sessions sagði að svo væri sannarlega. Hann sagði jafnframt að það væri fordæmalaust hversu mörgum viðkvæmum leyndarmálum hefði verið lekið undanfarin ár. Al Jazeera segir frá þessu.

„Þetta hefur farið fram úr öllu sem mér er kunnugt um. Öryggissérfræðingar sem hafa starfað í þeim geira árum saman eru forviða á því hversu margir lekarnir eru og hversu alvarlegir sumir þeirra eru,“ sagði Sessions. „Við munum freista þess að fangelsa fólk í hvert sinn sem við teljum það mögulegt.“

Samsæri, þjófnaður á ríkiseigum og njósnir

Saksóknarar vestanhafs hafa undanfarnar vikur unnið að minnisblaði þar sem þeir velta upp möguleikum á saksókn á hendur Assange og öðrum tengdum Wikileaks fyrir samsæri, þjófnað á ríkiseigum og brot á löggjöf landsins um njósnir. Washington Post greinir frá þessu.

Málið var sett á ís í forsetatíð Baracks Obama eftir að saksóknarar komust að þeirri niðurstöðu að ákæra á hendur Assange yrði sambærileg því að ákæra forsvarsmenn fjölmiðla fyrir að fjalla um efni sem hefði átt að fara leynt. Wikileaks hafi enda ekki staðið eitt að lekanum sem rakinn var til Bradley Manning, nú Chelsea Manning, heldur hafi virtir fjölmiðlar á borð við New York Times unnið að honum með samtökunum.

Assange dvelur enn í sendiráði Ekvador í London. Fari hann þaðan má hann eiga von á að vera handtekinn og framseldur til Svíþjóðar, þar sem hann sætir ákæru fyrir nauðgun. Assange hefur sagt að hann sé reiðubúinn að fara til Svíþjóðar og svara þar til saka ef tryggt er að Svíar framselji hann ekki áfram til Bandaríkjanna.

Óljóst er hvort aðild Wikileaks að lekum á upplýsingum um Hillary Clinton í forsetakosningunum vestanhafs í fyrra sé á meðal þess sem saksóknarar horfa til þegar þeir meta hvort sækja beri Assange til saka. Talsmenn Demókrataflokksins hafa kennt þeim lekum um tap Clinton í kosningunum og bandarísk yfirvöld hafa komist að þeirri niðurstöðu að Rússar hafi verið á bak við lekann og að þeir hafi notað Wikileaks til að klekkja á Clinton og auka líkurnar á sigri Trumps.

Mike Pompeo, stjórnandi bandarísku leyniþjónustunnar CIA, lýsti Wikileaks í síðustu viku sem óvinveittri njósnastofnun sem nyti stuðnings Rússa. Trump hefur hins vegar sjálfur hrósað samtökunum fyrir afhjúpanir þeirra á málefnum Clinton.

 

 

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV