Sérsveit rannsakar efnavopnaárásir

23.02.2016 - 01:36
Mynd með færslu
Aleppo er illa leikin eftir margra ára borgarastríð.  Mynd: YouTube
Sérfræðingasveit á vegum Sameinuðu þjóðanna heldur til Sýrlands í mars til þess að rannsaka hverjir beri ábyrgð á efnavopnaárásum í landinu.

Sveitin var stofnuð af Öryggisráði SÞ í ágúst í kjölfar frásagna um klórgasárásir á þrjú þorp í Sýrlandi sem kostaði þrjú mannslíf. AFP fréttastofan hefur eftir Virginia Gamba, yfirmanni sveitarinnar, að hún fari til Sýrlands um leið og Öryggisráðið gefi grænt ljós. Sveitinni er gert að komast að því hvaða einstaklingar og samtök bera ábyrgð á árásunum. Gamba segir sveitina rannsaka sjö mögulegar efnavopnaárásir, þar af fimm í Idlib-hérðai árin 2014 og 2015.

Ásakanir hafa gengið á milli stjórnar Bashars al-Assads og uppreisnarsveita um að beita efnavopnum í borgarastríðinu sem hófst fyrir nærri fimm árum. Um 260 þúsund hafa látið lífið frá því átök hófust.