Sendiráð Sri Lanka fylgist með mansalsmálinu

20.02.2016 - 10:44
Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Níels Kjartansson  -  RÚV
Maðurinn, sem situr í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglu á mansalsmáli á saumastofu í Vík, er grunaður um að hafa brotið á réttindum annars starfsfólks sem hann hafði í vinnu. Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi. Lögreglan rannsakar nú hvort konurnar tvær, sem frelsaðar voru á fimmtudag, hafi verið sviptar frelsi. Sendiráð Sri Lanka gagnvart Íslandi fylgist með málinu og hefur sett sig í samband við ræðismanninn hér á landi.

Maðurinn og konurnar tvær eru frá Sri Lanka. Maðurinn er fæddur 1975 og samkvæmt heimildum fréttastofu kom hann til landsins fyrir nokkrum árum. Eiginkona mannsins, sem einnig er frá Sri Lanka, hefur búið hér á landi mun lengur eða í ellefu ár. Hún var lengi starfsmaður hjá Víkurprjóni - líka eftir að Icewear keypti fyrirtækið.  Samkvæmt lögmanni hennar hefur konan ekki réttarstöðu sakbornings í rannsókn lögreglu. 

Sendiráð Sri Lanka gagnvart Íslandi sem staðsett er í Stokkhólmi hefur sett sig samband við ræðismann landsins hér á landi og óskað eftir upplýsingum um framvindu rannsóknarinnar. Málið er litið alvarlegum augum en fjallað hefur verið um það í fjölmiðlum á Sri Lanka.

Hjónin stofnuðu saman fyrirtækið Vonta International í júlí 2014 samkvæmt skjölum sem skilað var til ríkisskattstjóra en fyrirtækið hefur meðal annars verið undirverktaki hjá Icewear í Vík. Í október sama ár sótti maðurinn um iðnaðarlóð hjá sveitastjórninni í Mýrdalshreppi en fékk ekki þar sem svæðið hafði ekki verið deiliskipulagt. 

Fyrirtækið hefur þó greinilega ekki eingöngu verið undirverktaki hjá Icewear heldur einnig framleitt eigin vörur - það sótti um leyfi fyrir að setja upp söluskála við Skógarfoss í febrúar á síðasta ári. Sveitastjórn Rangárþings eystra hafnaði þeirri beiðni þar sem deiliskipulagið gerði ekki ráð fyrir söluskálum á því svæði.

Lögreglan á Suðurlandi vill lítið tjá sig um rannsókn málsins . Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, staðfestir þó að búið sé að taka skýrslur af konunum tveimur. Unnið hafi verið að því í nótt að koma þeim fyrir en ekki sé talið að þær séu í neinni hættu. Ekki fást neinar upplýsingar um hvar þær eru niðurkomnar en Kvennaathvarfið hefur verið með eina úrræðið fyrir þolendur mansals hér á landi.  

Rannsókn málsins er unnin í samstarfi við lögregluna á Suðurnesjum og mansalsteymi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.