Send heim eftir sjálfsvígstilraun

15.08.2017 - 19:26
Ung kona sem reyndi að svipta sig lífi fyrir sex árum segir að sér hafi verið vísað frá á geðdeild Landspítalans. Fjölskylda hennar hafi þurft að fylgja henni hvert einasta skref fram að bata. Spítalinn hafi brugðist sér.

Ungur maður svipti sig lífi á geðdeild Landspítalans í síðustu viku. Vitað var að maðurinn hafði verið í mikilli sjálfsvígshættu. Málið verður rannsakað ítarlega. Embætti Landlæknis fékk tilkynningu um málið en hún reyndist ekki fullnægjandi þar sem eyðublað um alvarleg atvik var ekki notað, auk þess sem sjúkragögn vantaði. Unnið er að því á Landspítalanum að taka rétt gögn saman, samkvæmt upplýsingum frá embætti Landlæknis.

Þetta er ekki fyrsta sjálfsvígið á geðdeildinni. Vitað er til þess að sjúklingur svipti sig lífi þar fyrir um áratug síðan. Ekki fengust staðfestar tölur um fjölda sjálfsvíga á deildinni þegar eftir því var leitað í dag.

Vísað frá á hálftíma

Heiðdís Erla Sigurðardóttir er 27 ára gömul. Fyrir sex árum síðan glímdi hún við mikið þunglyndi, geðhvörf og ofsakvíða.

„Sumarið 2011 tók ég of stóran skammt af verkjalyfjum og geðlyfjum viljandi til þess að fremja sjálfsvíg,“ segir Heiðdís sem lifði sjálfsvígstilraunina af og leitaði skömmu síðar á geðdeild Landspítalans.

„Þar opnaði ég mig frekar en að reyna að taka mitt líf aftur. Og þar var mér vísað frá innan við hálftíma eftir viðtal við hjúkrunarkonu. Vegna þess að hún tók ekki mark á því að ég væri í lífshættu og að mér væri ekki treystandi fyrir mínu eigin lífi. Mér var lofað að hitta geðlækni næsta dag en það reyndist ekki rétt. Hún hafði samband við mig tveimur vikum síðar,“ segir Heiðdís.

„Í rauninni brást geðdeildin mér og geðsviðið á Landspítalanum.“

Heiðdís segir að fjölskylda hennar hafi gripið inn í og í raun bjargað sér.

„Hún fylgdi mér hvert einasta skref að batanum. Og var í rauninni mín geðdeild, þau voru mínir geðlæknar, sálfræðingar og hjúkrunarfólk frá A til Ö.“

„Ekki eðlilegt“

Heiðdís segir að sjálfsvíg unga mannsins í síðustu viku hafi kallað fram sterkar tilfinningar. „Ofboðslega reiði gagnvart geðsviði Landspítalans eftir að þessi ungi drengur tók sitt eigið líf, þar sem hann átti að vera vaktaður.“

Hvorki heilbrigðisráðherra né forstjóri Landspítalans höfðu tök á því að veita fréttastofu viðtal í dag.

„Við eigum að geta treyst því að fólk sem er í lífshættu út af sálinni sinni fái aðstoð. Fólk er að deyja á meðan það er að bíða eftir að fá hjálp. Það er ekki eðlilegt,“ segir Heiðdís.