Segjast ekki ætla að auka starfsemi í Keflavík

10.02.2016 - 20:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bandaríkjaher ætlar ekki að auka starfsemi flotans á Íslandi þótt eyða eigi milljörðum í framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Þetta segir talskona flotans. Þó sé með öllu óljóst hvað gerist í framtíðinni.

Vefrit bandaríska hersins, Stars and Stripes, greindi frá því í gær að Bandaríkjaher ætli að snúa aftur til Íslands og hafa tímabundna aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Sjóherinn gæti síðar meir óskað eftir aðstöðu til langframa. Herinn hefur farið fram á fjármagn á fjárlögum Bandaríkjanna til ársins 2017 til að lagfæra gamalt flugskýli hersins á Keflavíkurflugvelli, sem á að hýsa P-8 Poseidon vélar hersins. Óskað er eftir sem nemur rúmum tveimur komma sjö milljörðum króna í verkefnið.

„Það stendur ekki til að breyta starfsemi sjóhersins í Keflavík. Við hyggjumst endurreisa þar grunnstoðirnar svo að stöðin geti sinnt P-8 flugvélunum sem leysa P-3 flugvélarnar af hólmi,“ segir Pamela Rawe, talskona hjá bandaríska sjóhernum í Evrópu sem er með höfuðstöðvar í Napolí á Ítalíu.

En er þetta gert til þess að flotinn geti fylgst betur með rússneskum kafbátum?

„Allar flugvélar okkar eru fjölnota vélar svo að við beitum þeim eftir því sem verkefnin krefjast. Og það er ákveðið í hverju tilviki fyrir sig.“

Þýðir þetta að Bandaríkjaher gæti tekið upp reglubundna starfsemi í Keflavík?

„Eins og er hefur það ekki verið rætt. Það veit hins vegar enginn hvað framtíðin ber í skauti sér.“

Þannig að það eru ekki uppi áætlanir um að efla starfsemi sjóhersins á Íslandi?

„Nei.“

Funda um málið í fyrramálið

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og fulltrúi í utanríkismálanefnd Alþingis, óskað eftir því í morgun að nefndin verði kölluð saman til að ræða áform Bandaríkjahers um aukin umsvif hér á landi. Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður nefndarinnar, segir að sjálfsagt hafi verið að verða við því.

„Það var óskað eftir því af hálfu fulltrúa vinstri grænna strax í morgun að það yrði haldinn fundur og við urðum við því fljótt og örugglega og það verður haldinn fundur með ráðherra klukkan níu í fyrramálið,“ segir Hanna Birna. Hún telur þó ekki ástæðu til að gera mikið úr málinu.

„Ég held að eftir því sem dagurinn hefur liðið höfum við séð að ekki er um stórmál að ræða. Við erum auðvitað í varnarsamstarfi við Bandaríkin og NATO. Við erum með varnarsamning frá 1951 og sameiginlega yfirlýsingu frá 2006. Þetta er í fullu samræmi við það, að hér séu gerðar lagfæringar á aðstæðum,“ segir Hanna Birna.