Segja þörf á sérstöku siðaráði

06.01.2016 - 16:23
Íslenskir stjórmálamenn eru frekar stjórnlyndir og þeim finnast ráð og nefndir oft til trafala. Það kann að skýra það hvers vegna landsiðaráð er ekki starfandi hér líkt og víða í löndunum í kringum okkur. Þetta segir Vilhjálmur Árnason, heimspekiprófessor. Ársfundur Siðfræðistofnunar var haldinn í dag og var þar rætt sérstaklega hvort koma ætti á siðaráði á landsvísu. Ráðið hefði það hlutverk að fjalla um siðferðisleg álitamál og aðstoða stjórnvöld við stefnumótun.

 Staðgöngumæðrun og líknardauði

Bretar, Þjóðverjar, Norðmenn, Danir og fleiri þjóðir státa af sérstöku siðaráði. Verkefni þeirra eru einkum að fjalla um siðferðileg álitamál sem rísa vegna þróunar í lífvísindum og erfðatækni. Staðgöngumæðrun, stofnfrumurannsóknir og erfðabreytt matvæli falla þar undir. Starfsviðið getur þó verið víðtækara, í Danmörku og Þýskalandi hafa þessi ráð einnig fjallað um réttindi fatlaðra, líknardauða og samskipti við þróunarlönd.

Ekkert ráð frá aldamótum

Fordæmi eru fyrir því að ráð af þessum toga hafi veitt stjórnvöldum ráðgjöf hér á landi. Siðaráð landlæknis var starfandi til aldamóta. Hlutverk þess var tvíþætt, það fjallaði um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði og um almenn álitamál á sviði heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstefnu. Vísindasiðanefnd tók árið 1997 að sér að rýna rannsóknir en frá aldamótum hefur ekkert ráð haft það hlutverk að ráðleggja stjórnvöldum við stefnumótun í erfiðum siðferðislegum málum. „Þegar ráðið var lagt niður þá var það hugmynd þeirra sem að því stóðu að einhvers konar landsráð tæki við stefnumótunarhlutverki þess. Siðferðisstofnun hefur lengi haft áhuga á því að slíkt ráð verði til og stjórnvöldum til ráðgjafar um álitaefni einkum á sviði líftækni og erfðafræði en það hefur ekki verið pólitískur vilji til að taka slíkt ráð upp,“ segir Vilhjálmur.

Stjórnlyndi stjórnmálamanna um að kenna

Hvers vegna telur hann að viljann skorti?  „Það er ekki gott að segja hvers vegna. Ein skýring sem ég hef haft er að íslenskir stjórnmálamenn séu stjórnlyndir, þeir líta svo á réttilega að þeir séu kjörnir til að taka ákvarðanir og þeim finnst oft að ráð og nefndir séu til trafala í því en hugsunin er vitaskuld sú að svona ráð séu til þess að auðvelda stjórnvöldum og öllum hagsmunaaðilum og almennum borgurum að ígrunda mál betur og stuðla þannig að vandaðri undirbúningi við löggjöf og stefnumótun þannig að það sé ekki verið að taka ráðin af kjörnum fulltrúum heldur frekar að styrkja umhugsun þeirra um málin og auðvelda þeim að taka betur rökstuddar ákvarðanir.“

„Mikilvægt að efla þennan þátt“

Þingmenn allra flokka stjórnarandstöðunnar lögðu í fyrra vor og aftur í haust fram þingsályktunartillögu um landsiðaráð, en tillagan hefur enn ekki verið rædd á þinginu. „Við metum það mikilvægt að efla þennan þátt í okkar stjórnkerfi þó við séum auðvitað með Vísindasiðanefnd, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og ýmsar nefndir sem eru að fást við þessi mál þá er enginn formlegur vettvangur sem er stjórnvöldum til ráðgjafar um siðferðileg álitamál og við teljum mikilvægt að þessi tillaga fái almennilega umræðu innan stjórnkerfisins þannig að stjórnvöld hafi einhvern skýran vettvang til að leita eftir siðferðilegri ráðgjöf. Það er von mín að sú umræða sem kannski er að skapast núna um þetta verði til þess að ýta við þingmönnum og fólk verði tilbúið að taka þetta á dagskrá og ræða þetta,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sem mælti fyrir tillögunni. Vilhjálmur vonar að þverpólitísk þátt náist um málið og að það verði ekki að bitbeini milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Siðferðisstofnun hefur kallað eftir því að forseti þingsins taki málið upp.

Hvorki laun né umboð

Siðfræðistofnun hefur að sögn Vilhjálms reynt að sinna mörgum þeim hlutverkum sem ráðið kæmi til með að sinna; útgáfu, opnum fundum og þátttöku í starfshópum. Hún hefur þó ekkert lýðræðislegt umboð og öll vinna stofnunarinnar á vegum stjórnvalda er ólaunuð. Vilhjálmur telur að stofnunin geti myndað faglegt bakland fyrir siðaráðið en hann sér fyrir sér að fulltrúar þess yrðu tilfnefndir af fagaðilum og skipaðir af stjórnvöldum.

Vanmeta hið siðfræðilega

Vilhjálmur segir að vissulega leiti stjórnmálamenn oft til fagaðila en að á því geti orðið misbrestur. Hinn siðfræðilegi þáttur sé þó oft vanmetinn. „Það er mjög algengt að það sé leitað eindregins álits lögfræðinga, hagfræðinga, fræðilegra álita úr þeim geirum samfélagsins en hið siðfræðilega er oft vanmetið og jafnvel afgreitt með því að segja, jú við höfum nú öll skoðanir á þessu. Það eru oft mjög flókin atriði sem er mikilvægt að leggja skipulega niður. Það þarf að læra af reynslu annarra og gera borgurum og opinberum aðilum kleift að rökræða um málið, ekki bara takast á út frá einberum skoðunum heldur að það sé upplýst umræða sem stuðlar að því að við ræðum málin betur og komumst þá að betri niðurstöðu líka.“

Aðkoma sérstaks siðaráðs að undirbúningi frumvarps um staðgöngumæðrun hefði til dæmis verið afar jákvæð að hans mati.

Greinileg áhrif á löggjöf

Vilhjálmur segir að í nágrannalöndum okkar hafi siðaráðin haft áhrif þrátt fyrir að hafa ekkert boðvald. Þingmenn séu viljugir til þess að nýta sér þau. „Maður sér alveg áhrif af þessum ráðum, oft á löggjöf og stefnumótun en auðvitað veltur þetta í raun á sambandinu sem myndast á milli svona ráðs og stjórnvalda.“

 

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi