Segja grásleppusjómönnum sýnt virðingarleysi

17.03.2016 - 01:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  www.smabatar.is
Smábátasjómenn á Sauðárkróki mótmæla ákvörðun sjávarútvegsráðherra að seinka upphafstíma grásleppuvertíðar harðlega. Þetta kemur fram í ályktun þeirra eftir fjölmennan fund í kvöld. Þeir segja atvinnugreininni sýnd virðingarleysi með því að birta tilkynningu um breyttan upphafstíma með fimm daga fyrirvara. Ákvörðunin var birt á vef Fiskistofu í gær.

Þá vísa þeir ásökunum um að grásleppusjómenn umgangist auðlindina ekki af ábyrgð til föðurhúsanna. Þeir skora á ráðherra að draga ákvörðunina tafarlaust til baka.

Ályktunin er þannig í heild sinni:

Sameiginlegur fundur smábátaeigenda í Skalla og Drangey haldinn á Sauðárkróki 16. mars 2016 mótmælir harðlega  gerræðislegri ákvörðun sjávarútvegsráðherra að seinka  upphafstíma grásleppuvertíðar.

Í rökstuðningi með ákvörðuninni er þung ásökun um að  grásleppusjómenn umgangist auðlindina ekki af ábyrgð.  Fundurinn vísar því til föðurhúsanna.

Harmað er það virðingarleysi sem atvinnugreininni er sýnd með tilkynningu með fimm daga fyrirvara um breyttan upphafstíma.

Fundurinn skorar á sjávarútvegsráðherra að virða rétt grásleppusjómanna og draga ákvörðun sína tafarlaust til baka.

 

 

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV