Segist axla ábyrgð á stöðu Samfylkingarinnar

11.02.2016 - 21:03
Árni Páll Árnason segir að hann sé ekki að vísa ábyrgð á stöðu Samfylkingarinnar á hendur Jóhönnu Sigurðardóttur með bréfi sem hann sendi á alla flokksfélaga í dag. Mikilvægt sé að gera upp þau mál sem fóru úrskeiðis á síðasta kjörtímabili og þar beri hann hluta ábyrgðarinnar enda hafi hann verið ráðherra í þeirri stjórn.

Árni Páll sagði í Kastljósi að Samfylkingin ætti fullt erindi við kjósendur en hún þyrfti að skerpa á málflutningi sínum og áherslum. Hún hefði brugðist þeim þegar hún tók afstöðu með fjármálakerfinu gegn fólkinu og reyndi að leysa mál með baktjaldamakki í stað þess að treysta þjóðinni fyrir valdinu. Nauðsynlegt sé að ræða opinskátt um stöðu flokksins og leita aftur í þau gildi sem Samfylkingin standi fyrir.

Hann sagði jafnframt að fólk mætti kenna honum einum um þá stefnu sem stjórnarskrármálið tók en hann teldi þó ekki að málið væri tapað. Umræðan væri lifandi og fyrir lægi að breytingar á stjórnarskrá yrðu ræddar á þinginu á næstunni.