Segir vanta öryggisnet

17.02.2016 - 20:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dæmi eru um að einstaklingum á einhverfurófi hafi verið vísað í gistiskýli þar sem engin önnur úrræði í húsnæðismálum hafi verið í boði, segir formaður Þroskahjálpar. Í Reykjavík sé engin neyðaráætlun til að bregðast við þegar mál koma upp.

Kastljós fjallaði í kvöld um þjónustu sveitarfélaganna við fólk með þroskahömlun.  Liðlega fimm ár eru frá því að þjónusta við fatlaða fluttist frá ríkinu til sveitarfélaganna. Stærsta verkefnið snúi að húsnæðismálum og biðlisti eftir húsnæði lengist. Formaður Þroskahjálpar segir umhugsunarvert að í Reykjavík, til að mynda, virðist engin neyðaráætlun vera til svo hægt sé að bregðast við ef til dæmis foreldrar einstaklings með þröskahömlun falla skyndilega frá.  Ekkert öryggisnet sé til staðar. 

„Við getum horft á til dæmis fólk á einhverfurófi sem er oft með mjög flókið atferli sem getur leitt til þess að þau geta bara ekki lengur verið í foreldrahúsum, það getur verið einhver ógn sem veldur því. Þá veit ég til dæmis um að ungu fólki hafi verið vísað  í gistiskýli sem á samkvæmt lögum rétt á því að það sé leyst úr þeirra málum með mannsæmandi hætti og því útvegað húsnæði,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir
 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV