Segir útgerð og stjórnvöld sýna hroka

19.02.2017 - 12:48
Mynd með færslu
Reiði er meðal margra sjómanna yfir því að vera boðaðir um langan veg til hafnar áður en ljóst er hvernig atkvæðagreiðsla um kjarasamning þeirra endar. Þetta segir formaður Verkalýðsfélagsins Framsýnar. Tvísýnt er talið hvernig atkvæðagreiðslan fer og skoðanir misjafnar eftir landshlutum.

Sjómannafélög víða um land hafa um helgina haldið kynningarfundi fyrir félagsmenn sína til að kynna kjarasamninginn sem skrifað var undir í fyrrinótt. Hljóðið er afar misjafnt eftir svæðum, til að mynda eru Vestfirðingar neikvæðir á meðan hljóðið er betra á Vesturlandi. Flestir þeir sem fréttastofa hefur rætt við telja að mjótt verði á munum.

Aðalsteinn Baldursson formaður Verkalýðsfélagsins Framsýnar á Húsavík hélt fund með sínu fólki í gær. Hann segir sjómenn hafa blendnar tilfinningar gagnvart samningnum. Önnur atriði vegi hins vegar þyngra. „Það er þessi mikli hroki sem endurspeglast í fjölmiðlum frá SFS og sjávarútvegsráðherra. Svo í dag var verið að boða áhafnir um borð í fiskiskip þó að ekki sé búið að ganga frá kjarasamningi og ekki búið að samþykkja hann. Þannig að það er mikil reiði hjá sjómönnum og mikil samstaða, þannig að það er kurr.“

Aðalsteinn segir þetta hroka af hálfu útgerðarinnar. „Það er bara svívirða og til skammar fyrir útgerðarmenn.“

Aðalsteinn telur að sjómenn greiði atkvæði að miklu leyti eftir þessu. Margt gott sé hins vegar í samningnum. „Menn mega ekki líkja þessu við að þetta sé eins og að fá Cocoapuffs-pakka í uppbót. Það er margt í þessu og margt gott en það er alveg ljóst að ráðherra sem ætlaði alls ekki að setja lög á þetta segist klár með lögin á þetta núna og þau komi á morgun ef það verði ekki samið í dag. Menn standa frammi fyrir þessu og að það verði settur gerðardómur og ég held að sjómenn séu verr staddir þannig í stað þess að samþykkja samninginn nú.“

Atkvæðagreiðsla stendur nú yfir hjá aðildarfélögunum og henni lýkur síðdegis. Atkvæðin verða svo talin í húsakynnum ríkissáttasemjara og á niðurstaða úr atkvæðagreiðslunni að vera ljós klukkan átta í kvöld. Meirihluti atkvæða gildir þannig að þó að samningur sé felldur innan eins eða fleiri félaga hefur það ekki áhrif ef meirihluti heildarinnar samþykkir.

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV