Segir son sinn ekki týndan í Paragvæ

12.01.2016 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd: ABC Color
Faðir Íslendings, sem lögreglan vildi ná tali af í tengslum við hvarf Friðriks Kristjánssonar, segir að sonur sinn sé ekki týndur í Paragvæ. Hann hafi heyrt í honum á Skype fyrir áramót.

Þetta segir faðirinn í samtali við DV.is. Þá segist hann enn fremur ekki vita til þess að sonur sinn hafi þekkt Friðrik. Sonurinn hafi dvalið í Suður-Ameríku undanfarin fimm ár eða svo og ferðast millli landa.

Haft er eftir Aldísi Hilmarsdóttur, yfirmanni fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að málið hafi verið skoðað í gær, þegar fréttir um það birtust. Það sé rétt að Íslendingurinn sé einn þeirra sem lögreglan hafi viljað ná tali af í tengslum við hvarf Friðriks en það hafi ekki tekist. Það þýði þó ekki að óttast sé um líf hans eða afrif. 

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögreglumaður, sagði í samtali við fréttastofu í morgun, að lögreglan hér á landi hefði enga lögsögu í málinu. Það væri á forræði lögreglunnar í Paragvæ. Hann vissi ekki hvernig rannóknin á hvarfi Friðriks gengi.

Ekki hefur náðst í lögregluyfirvöld í Paragvæ í morgun.