Segir samstöðu um aðgerðir gegn Rússum

19.01.2016 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd: RUV Arnar Páll
Engin óeining var milli norsks sjávarútvegs og stjórnvalda eftir að Rússar settu innflutningsbann á sjávarafurðir. Þetta segir ráðgjafi í ráðuneyti viðskipta, iðnaðar og sjávarútvegs í Noregi. Stjórnvöld og norskur sjávarútvegur hafi frá upphafi unnið náið saman.

„Það hefur í raun ekki verið neinn ágreiningur um þetta mál hér í Noregi,“ segir Ole-Jakob Lillestol, ráðgjafi hjá ráðuneytinu, í svari við fyrirspurn fréttastofu. „Sjávarútvegurinn studdi stjórnvöld frá upphafi. Greinin var fljót að sjá heildarmyndina. Greinin hefur lengi búið við ótryggt markaðsaðgengi, sérstaklega í Rússlandi.“

Ole-Jakob segir að það hafi verið mikilvægt að hefja strax náið samtal og samstarf á milli stjórnvalda og sjávarútvegsins. „Til að finna viðeigandi aðgerðir til að hjálpa greininni að gera það besta úr erfiðri stöðu.“

Vísar Ole-Jakob á orð ráðherra, Elisabeth Aspaker, um að norskur sjávarútvegur hafi strax í upphafi lýst yfir stuðningi við utanríkisstefnu landsins.

Hann segir að þrátt fyrir að norskur sjávarútvegur hafi sett met í útflutningsverðmætum síðustu tvö ár hafi bannið verið mikið högg. Tekjur hefðu orðið enn meiri með aðgengi að Rússlandsmarkaði og að veiking norsku krónunnar hafi einnig spilað stórt hlutverk.

Hér á landi hafa stjórnvöld og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hins vegar deilt harkalega um afstöðu Íslands frá fyrsta degi. Rök SFS hafa með annars verið þau að bannið hitti fyrir hér af meiri þunga en annarsstaðar.