Segir sameiginlegar heræfingar ógna heimsfriði

17.03.2016 - 05:42
epa04675200 Jamal Benomar (on the video screen), UN Special Adviser on Yemen to the United Nations, addresses the United Nations Security Council (UNSC) on the situation in Yemen at the UN  headquarters in New York, USA, 22 March 2015.  EPA/JASON SZENES
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.  Mynd: EPA
Norður-Kórea krefst þess að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna setjist niður og ræði sameiginlegar heræfingar Suður-Kóreu og Bandaríkjanna. Frá þessu greinir bandaríska fréttastofan CNN sem hefur undir höndum bréf sem sendiherra Norður-Kóreu hjá Sameinuðu þjóðunum sendi ráðinu. Heræfingarnar hafa aldrei verið umfangsmeiri en nú.

Sendiherrann segir í bréfi sínu að þær séu herskáar og beinist gegn Norður-Kóreu. Þeim sé beint að stjórnvöldum landsins og ætlunin sé að hrifsa völdin af leiðtogum þess og umturna samfélaginu. Hann segir að ráðinu sé skylt að athuga málið vilji það halda trúverðugleika sínum. Heræfingin sé mun meiri ógn við heimsfrið og -öryggi heldur en þau mannréttindamál sem Sameinuðu þjóðirnar eru með til rannsóknar hjá Norður-Kóreu. Hingað til hefur Öryggisráðið ekki samþykkt beiðnir Norður-Kóreu.

Skammt er síðan hertar refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu voru samþykktar í Öryggisráðinu vegna tilrauna þeirra með kjarnavopn og langdræg flugskeyti fyrr á árinu og í gær var tilkynnt um nýjar viðskiptaþvinganir af hendi Bandaríkjanna gegn Norður-Kóreu.