Segir réttlætanlegt að skjóta flóttafólk

31.01.2016 - 05:28
epa05135906 (FILE) A file picture dated 29 november 2015 shows Frauke Petry, Speaker of the right-wing populist political party Alternative for Germany (AfD, Alternative fuer Deutschland), delivering a speech at the AfD federal convention in Hanover,
 Mynd: EPA  -  DPA
Frauke Petry, formaður þýska stjórnmálaflokksins Alternativ für Deutschland (AfD), segir að verja þurfi landamæri Þýskalands gegn ólöglegum innflytjendum með öllum tiltækum ráðum. Landamæraverðir og lögregla verði að grípa til skotvopna, ef ekki dugi annað, sagði Petry í viðtali við þýska blaðið Mannheimer Morgen. Ummæli hennar hafa vakið hörð viðbrögð stjórnmálamanna jafnt innan Þýskalands sem utan. Þá hefur talsmaður stéttarfélags lögreglumanna verið harðorður í garð Petry vegna þessa.

Í viðtalinu krefst Petry mun strangari landamæragæslu en þegar hefur verið tekin upp, einkum á landamærum Þýskalands og Austurríkis, til að draga úr fjölda ólöglegra og óskráðra innflytjenda. Einnig getur hún vel hugsað sér að reistar verði girðingar á landamærum ríkjanna, ef með þarf.

Aðspurð um hvernig landamæravörður ætti að bregðast við ef hann yrði þess var að einhver stigi fæti á þýska grundu þrátt fyrir slíkar varnir, sagði hún hann verða að koma í veg fyrir slíkt, „og nota skotvopn sitt ef með þarf. Þannig eru lögin," sagði Petry.

Eftir að viðtalið birtist hefur hún verið rukkuð um, hvaða lög mæli svo fyrir, en hún hefur ekki svarað því. Hún segist ekki hafa sagt menn skylduga til að skjóta. Enginn lögreglumaður vilji skjóta flóttamann, og hún vilji heldur ekki að þeir geri það. En vopnavald sé engu að síður neyðarúrræði sem grípa megi til ef allt annað þrýtur. 

Jörg Radek, varaformaður stéttarfélags lögreglumanna, er ómyrkur í máli. Enginn þýskur lögreglumaður mun skjóta flóttamann, sagði hann, og hver sá sem fer fram á slíkt vilji í raun afnema réttarríkið og nota lögregluna sem valdbeitingartæki. 

Thomas Oppermann, þingflokksformaður sósíaldemókrata, sem eru samstarfsflokkur kristilegra demókrata í ríkisstjórn, segir Petry á stórkostlegum villigötum. Hún efni til óvildar í garð flóttafólks með algjörlega ólíðandi hætti. Síðasti þýski stjórnmálamaðurinn, sem lét landamæraverði skjóta á flóttafólk var Erich Honnecker, sagði Oppermann, með vísan til ógnarstjórnar kommúnista í Austur-Þýskalandi.

Stephan Meyer, þingmaður CSU, systurflokks Kristilegra demókrata í Bæjaralandi, þar sem straumur flóttafólks er hvað þyngstur, tók í sama streng. Katrin Göring-Eckardt, þingflokksformaður Græningja, sagði kröfu Petrys afhjúpa hið rétta og ljóta andlit AfD. Nú sé það öllum sýnilegt, að AfD sé flokkur kynþáttahaturs, mismununar og mannfyrirlitningar. Jan Korte, þingaður Vinstriflokksins, segir ummæli Petry ómanneskjuleg og andlýðræðisleg og benda til þess að Frauke Petry gæti kunnað ágætlega við sig í Norður-Kóreu.

AfD hefur notið vaxandi fylgis að undanförnu, á sama tíma og fylgi Kristilegra demókrata, flokks Angelu Merkel Þýskalandskanslara hefur dalað nokkuð. Í nýlegum skoðanakönnunum hefur AfD mælst þriðji stærsti flokkur landsins, næst á eftir Kristilegum demókrötum og Sósíaldemókrötum, en stærri en Græningjar, Vinstriflokkurinn og Frálslyndi flokkurinn. 

Flokkurinn bætir enn við sig fylgi í nýjustu könnuninni, sem birtist í Bild am Sonntag í dag. Samkvæmt henni nýtur AfD nú stuðnings 12% kjósenda, en hafði 10% í síðustu könnun þar á undan. 34% styðja CDU/CSU, tveimur prósentustigum minna en síðast og er minnsta fylgi þessara flokka síðan um mitt ár 2012. 24% segjast styðja Sósíaldemókrata, SPD; 10% styðja Vinstri flokkinn (Linke), 9% styðja málstað Græningja og 5% finna sig helst í stefnumálum Frjálslynda flokksins.