Segir Ólympíufara ekkert hafa að óttast

13.02.2016 - 15:11
Health workers fumigate to prevent Dengue, Chikunguya and Zika virus, at El Angel cemetery, in Lima, Peru, Wednesday, Jan 20, 2016. A U.S. warning urging pregnant women to avoid travel to Latin American countries where the mosquito-borne virus is
 Mynd: AP
Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, segir að zika-veiran sé engin ógn við Sumarólympíuleikana, sem verða settir í ágúst. Forsetinn lýsti því yfir í dag að langur tími væri til stefnu til að fækka moskítóflugunum sem bera veirusmitið. Þátttakendurnir hefðu því ekkert að óttast.

Yfir 220 þúsund brasilískir hermenn fengu í dag það verkefni að vara fólk við zika-veirunni. Þeir eiga að ganga hús úr húsi í 350 borgum, bæjum og sveitum landsins og dreifa fjórum milljónum upplýsingabæklinga um veiruna og varnir gegn henni.

Zika-veiran er einkum talin skeinuhætt barnshafandi konum. Líkur benda til þess að hún valdi fósturskaða. Á fimmta þúsund vanfærar konur hafa smitast af veirunni í Brasilíu. Þá greindu heilbrigðisyfirvöld í Kólumbíu frá því í dag að þar hefðu yfir fimm þúsund barnshafandi konur smitast.