Segir náttúruvernd í hálfgerðu skötulíki

19.03.2017 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Pmarshal  -  Wikimedia Commons
Þeir sem nýta landið verða að skipa sér í fararbroddi við verndun þess, segir Andrés Arnalds verkefnisstjóri hjá Landgræðslunni. Hann segir náttúruvernd á Íslandi í hálfgerðu skötulíki miðað við þá þróun sem orðið hefur.

 

Landssamband landeigenda verður með aðalfund á fimmtudaginn, þar sem Andrés veltir upp spurningunni hver eigi að gæta velferðar landsins.

„Svarið er í sjálfu sér afar einfalt, það er náttúrulega vissulega við öll og þjóðin sem slík, en þegar upp er staðið þá þarf náttúrulega að tengja saman nýtingu og verndun, þannig að allir þeir sem nýta landið með einum eða öðrum hætti þurfa að vera í fararbroddi við verndun þess.“

Andrés segir fegurð náttúru Íslands vera undirstöðu þeirra miklu tekna sem fást af ferðaþjónustunni og því sé mikilvægt að gæta að náttúrunni. Náttúruvernd hér á landi sé hins vegar í hálfgerðu skötulíki miðað við þróunina. 

„Það er í raun og veru engin heildræn stefna til um sjálfbæra ferðamennsku hér á Íslandi sem tekur meðal annars tillit til verndunar náttúruauðlindarinnar sem er undirstaðan. Það væri ákaflega æskilegt að Ísland mótaði sér stefnu um sjálfbæra ferðamennsku, það verði okkar vörumerki líkt og til dæmis Kostaríka og Namibía hafa gert með frábærum árangri.“

Einnig hafi stjórnvöld og ferðaþjónustan í Kanada verið með samstarf þar sem siðareglur hafi verið mótaðar og leiðsögn um hvað megi og hvað megi ekki. Það sé því hægt að sækja leiðbeiningar víða um hvernig best sé að standa að málum hér á landi og það þurfi að gera. Andrés segir að þó margt hafi áunnist sé hægt að gera mun betur. 

„Ef þú skoðar vefsíður fyrirtækja þá er purkunarlaust verið að selja Ísland sem landið þar sem allt virðist vera leyfilegt. Ef  þú skoðar til dæmis bara auglýsingar í blöðunum frá bílaumboðum og ýmsu slíku,“ segir Andrés Arnalds.

Hann segir að því sé verið að senda ferðamönnum röng skilaboð. Ferðaþjónustufyritæki geri þetta líka og ferðaþjónustan sé ekki í forystu í vernduninni. Algengt sé að leiðir séu mótaðar um annarra manna land án leyfis. Andrés nefnir sem dæmi að hverasvæði landsins fari afar illa út úr ágangi ferðamanna.

Hann telur að opna þurfi umræðu um fjöldatakmarkanir á viðkvæmum svæðum, en umfram allt þurfi meira fjármagn til að byggja upp aðstöðu svo hægt sé að taka á móti ferðamannastraumnum. Fagþekkingu skorti við þá uppbyggingu.

 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV