Segir Merkel beita aðferðum nasista

19.03.2017 - 15:08
epa05028490 German Chancellor Angela Merkel (L) and Turkish President Recep Tayyip Erdogan shake hands during their bilateral meeting at the G20 Summit in Antalya, Turkey, 16 November 2015. In addition to discussions on the global economy, the G20
Þýsk stjórnvöld leyfðu málaferli gegn skemmtikrafti sem hafði móðgað Erdogan Tyrklandsforseta.  Mynd: EPA  -  Anadolu
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sakar Angelu Merkel Þýskalandskanslara um að beita aðferðum nasista gegn Tyrkjum. Í ræðu sem hann flutti í dag í Istanbúl og var sjónvarpað um landið sagði forsetinn að þessum nasistaaðferðum hefði Merkel beitt gegn Tyrkjum, búsettum í Þýskalandi, og tyrkneskum ráðherrum sem hugðust efna til funda í Þýskalandi til að kynna stjórnarskrárbreytingar sem kosið verður um í næsta mánuði. Með þeim hyggst Erdogan forseti stórauka völd sín.

Sendiherra Þjóðverja í Tyrklandi var í dag boðaður til fundar í utanríkisráðuneytinu í Ankara. Þar verður hann krafinn sagna um ástæður þess að Kúrdum í Þýskalandi var leyft í gær að efna til fundar í Frankfurt, þar sem þess var krafist að lýðræði yrði eflt í Tyrklandi. Þá var skorað á Tyrki sem fá að greiða atkvæði um stjórnarskrárbreytingarnar að segja nei. Þrjátíu þúsund manns sóttu fundinn. Ráðamenn í Tyrklandi fordæmdu að yfirvöld í Þýskalandi hefðu heimilað Kúrdum að halda fundinn.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV