Segir markvissar aðgerðir í gangi gegn mengun

17.07.2017 - 22:04
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri og oddviti sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ.
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson  -  RÚV
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, segir að bæjarfélagið hafi staðið fyrir mjög markvissum aðgerðum til að minnka mengun í Varmá, sem rennur í gegnum bæinn. Líklega verði þó seint eða aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir mengunarslys.

Dauðir fiskar fundust í Varmá í Mosfellsbæ fyrir helgi. Jóhannes B. Eðvarðsson, íbúi við Varmá, sagði í sjónvarpsfréttum klukkan sjö að það væru vonbrigði hversu seint bæjaryfirvöld brygðust við ítrekuðum mengunarslysum í ánni.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri bendir á að Jóhannes gegni trúnaðarstörfum fyrir minnihlutann í bænum. Bæjarstjórinn hafnar því að ekkert hafi verið að gert. Leiðbeiningabæklingar hafi verið bornir í öll hús sem liggja að Varmá og efst í bænum, ofan Reykja, sé búið að gera fráveitukerfi sem kemur í stað rotþróa.

Fyrir miðhluta hverfisins sé svo búið að hanna sérstaka settjörn sem vatnið eigi að fara í gegnum áður því er veitt út í ána. Haraldur segir að bæjaryfirvöld geri ráð fyrir að hún verði tilbúin á næstu tveimur árum.

Haraldur segir að líka sé búið að skoða tengingar á til að mynda rotþróm og sundlaugum og kanna hvort slíkt hafi verið tengt vitlaust. Hann segir að viðfangsefnið sé flókið og íbúar verði líka að umgangast ána rétt. Bæjaryfirvöld ætli að gera allt sem sé tæknilega hægt að gera og sé innan skynsamlegra marka til að lágmarka áhættuna.

„En ég hugsa að seint eða aldrei verði algjörlega hægt að koma í veg fyrir að einhvern tímann verði einhver slys, því miður,“ segir Haraldur. Spurður hvort ekki hefði átt að vera löngu búið að ljúka aðgerðum, segir Haraldur að þær hafi verið í mjög stöðugri vinnslu og með mjög markvissum hætti.

„Það er alltaf hægt að segja ef og þá, en ég tel að starfsmenn Mosfellsbæjar og heilbrigðiseftirlitið hafi staðið sig vel í því að reyna að koma í veg fyrir þetta og gera það sem hægt er að gera til þess að áin okkar, Varmáin, sé eins ómenguð og hægt er.“

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV