Segir engum spurningum ósvarað

20.03.2016 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokks, segir engum spurningum ósvarað varðandi aflandsfélag eiginkonu forsætisráðherra. Hann segir málið ekki rýra traust milli stjórnarflokkanna.

Aflandsfélag eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, sem lýsti kröfum í slitabú föllnu bankanna upp á rúman hálfan milljarð króna, hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði í Vikulokunum á Rás 1 í gær að málið væri óþægilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 í gær gekk hann lengra og sagði að forsætisráðherra hefði átt að upplýsa fyrr um aflandsfélagið og málið hafi rýrt traust á milli stjórnarflokkanna.

Matthías Imsland, aðstoðarmaður forsætisráðherra, brást við ummælunum með því að skrifa á Facebook-síðu sína að hann þekki engan framsóknarmann sem treysti þingmanninum. Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokks, er ósammála Vilhjálmi Bjarnasyni, og segir málið ekki til þess fallið að rýra traust mili stjórnarflokkanna.

„Afstaða Vilhjálms til Framsóknarflokksins hefur lengi legið fyrir þannig að það kemur ekkert á óvart hvað hann segir,“ segir Karl í samtali við fréttastofu. „En ég held að svona yfir heildina litið þá muni þetta nú ekki rýra traustið á milli þessara tveggja flokka sem hefur verið mjög gott til þessa.“

Titringur milli stjórnarflokkanna

Ljóst er að málið hefur valdið töluverðum titringi milli stjórnarflokkanna, ekki síst í ljósi vangaveltna um hæfi Sigmundar Davíðs til að hafa aðkomu að uppgjöri við kröfuhafa föllnu bankanna. Þá sagði Vilhjálmur Árnason, stjórnarformaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi að forsætisráðherra hafi farið rangt að með því að upplýsa ekki um aflandseignirnar.

Fréttastofa leitaði viðbragða hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í morgun, en enginn þeirra vildi tjá sig um málið undir nafni. Einn þeirra sagði mjög óheppilegt að forsætisráðherra hafi ekki komið fram og skýrt málið að fullu, mörgum spurningum sé enn ósvarað. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir, hefur Sigmundur Davíð ekki enn viljað veita fréttastofu viðtal vegna málsins.

„Ég held að Sigmundur Davíð hafi gert mjög vel grein fyrir því opinberlega, í riti meðal annars, afstöðu og hvað hafi gerst í þessu máli og hvernig það er tilkomið þannig að ég held að hann hafi nú svarað öllum þeim spurningum sem þarf að svara,“ segir Karl. „Hvað mig varðar, eins og ég sé þetta mál, þá er búið að svara þeim spurningum sem þarf að svara þannig að hvað mig varðar þá finnst mér þetta mál vera frá.“