Segir ekkert nýtt í Litvinenko-skýrslu

22.01.2016 - 05:14
epa05115091 (FILE) A file photograph showing Russian lawmaker Andrei Lugovoi who is an alleged suspect in the polonium-210 poisoning of Russian ex-security service officer Alexander Litvinenko in London, attends a news conference in Moscow, Russia 12
 Mynd: EPA  -  EPA FILE
Annar mannanna sem sakaður er um að hafa eitrað fyrir Alexander Litvinenko segir nýútgefna skýrslu uppfulla af tilbúningi og vangaveltum. Breska ríkisútvarpið BBC náði tali af honum í gærkvöld og birti viðtalið á vefnum í nótt.

Andrei Lugovoi og Dmitry Kovtun eru sagðir hafa eitrað fyrir Litvinenko með því að setja geislavirkt efni í drykk hans á hóteli í Lundúnum árið 2006. Samkvæmt skýrslunni er talið öruggt að Vladimir Putin hafi gefið þeim grænt ljós á að myrða hann. Báðir neita þeir sök.

Lugovoi segir niðurstöðu skýrslunnar algjört þvaður og að skýrsluhöfundur sé greinilega ekki með öllum mjalla. „Ég sá ekkert nýtt í henni. Mér þykir leitt að ekkert nýtt komi fram eftir þessi tíu ár, aðeins tilbúningur, ágiskanir og sögusagnir," segir Lugovoi við BBC. Hann bendir á að fyrst orð á borð við mögulega og líklega eru notuð í skýrslunni bendi ekkert til þess að neinar sannanir séu fyrir hendi gegn þeim.

Lugovoi segir ólíklegt að hann svari til saka í Bretlandi. „Veistu, það er líklera að tunglið verði hluti jarðar en að ég verði framseldur frá Rússlandi - það er alveg ómögulegt," segir hann og bætir því við að hann treysti ekki breskum dómstólum fyrir málinu. Sem Rússi treysti hann rússneska dómskerfinu.