Segir ekkert hæft í fréttum um þjóðvarðliðið

17.02.2017 - 17:50
epa05793432 White House Press Secretary Sean Spicer takes a question during the daily news conference at the White House in Washington, DC, USA, 14 February 2017. Spicer faced numerous questions on the resignation of White House National Security Adviser
 Mynd: EPA  -  EPA EPA
Fullyrt er í bandarískum fjölmiðlum að stjórn Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, íhugi að kalla út allt að hundrað þúsund manna herlið til að safna saman ólöglegum innflytjendum í landinu. Fyrir þetta þvertekur talsmaður Hvíta hússins.

 

Í minnisblaði sem AP fréttastofan hefur undir höndum eru áform ríkisstjórnar Donalds Trumps reifuð. Minnisblaðið telur 11 síður og þar er farið yfir hugmyndir um að kalla saman allt að hundrað þúsund þjóðvarðliða til að safna saman ólöglegum innflytjendum í landinu. 

Það væri ekki í fyrsta sinn sem þjóðvarðliðið leggst á árar með yfirvöldum til að sporna við straumi ólöglegra innflytjenda við landamæri Mexíkó. Nýlunda væri hinsvegar að aðgerðirnar væru jafn samhæfðar og umfangsmiklar og hugmyndir eru um samkvæmt minnisblaðinu. 

Samkvæmt AP fréttastofunni eru það ekki bara þau fjögur ríki sem eiga landamæri að Mexíkó sem áformin tækju til, það er Kalifornía, Arizona, Nýja-Mexíkó og Texas. Alls tækju þjóðvarðlið 11 ríkja þátt en ríkisstjórum hvers og eins væri í sjálfsvald sett hvort þjóðvarðlið þess tæki þátt. Þjóðvarðliðið er varaherlið í bandarískum ríkjum sem er að hluta til styrkt af alríkisstjórninni. 

Samkvæmt Reuters fréttastofunni segir Sean Spicer, talsmaður Hvíta hússins fréttina falska. Hún sé að öllu leyti ósönn og óábyrgt sé að halda slíku fram.

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV