Segir brýnt að breyta reglugerð um fráveitur

12.09.2017 - 12:39
Mynd með færslu
Myndin er úr safni  Mynd: -  -  wilkimedia
Forstjóri Norðurorku á Akureyri segir brýnt að koma fráveitumálum sveitarfélagsins í lag. Hreinsikerfi hefur verið boðið út en engin tilboð borist. Heilbrigðisfulltrúi á Norðurlandi vestra segir íslenskar reglur um fráveitumál alltof strangar, sérstaklega fyrir minni þéttbýlisstaði.

Öll þéttbýlissvæði áttu að vera komin með fullnægjandi skólphreinsun árið 2005, en mikill misbrestur er á því, samkvæmt nýrri stöðuskýrslu Umhverfisstofnunar. Að minnsta kosti fjórðungur skólps fer óhreinsaður í sjóinn og er staðan verst á landsbyggðinni þar sem skólp er víðast hvar ekki hreinsað. 

Enginn vill reka hreinsivirkið

Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku sem tók við rekstri fráveitu á Akureyri árið 2014, segir að unnið hafi verið að því að koma upp hreinsivirki. Búið sé að hanna mannvirkið og það boðið út í maí. „En því miður bárust ekki tilboð í það og þannig er staðan í dag. Þetta er fullhannað og allt klárt, en ekki tekist vegna þenslu í þjóðfélaginu að fá fólk í vinnuna,“ segir Helgi. 

Verkið verði aftur boðið út, enda sé brýnt að koma hreinsikerfinu í gagnið sem fyrst. „Þetta hefur verið í vinnslu og algjörum forgangi hjá okkur frá því við tókum við fráveitunni 2014,“ segir Helgi. 

Ströngustu kröfur í Evrópu

Í tilkynningu frá Samorku segir að tímabilið sem úttekt Umhverfisstofnunar nær yfir sé óheppilegt. Árin hafi verið sveitarfélögum erfið í kjölfar efnahagshrunsins og lítið svigrúm til úrbóta en nú horfi til betri vegar. Þá gildi á Íslandi ströngustu kröfur í Evrópu um losun skólps í sjó en rannsóknir hafi sýnt að losun hafi hverfandi áhrif á lífríkið.

Skynsamlegt að breyta reglugerðinni

Undir þetta tekur Sigurjón Þórðarson, heilbrigðisfulltrúi á Norðurlandi vestra sem segir að íslenskar kröfur séu alltof strangar, en til stendur að breyta reglugerðinni. „Nú liggja fyrir drög frá ráðuneytinu um endurbætt ákvæði þar sem þetta er fært meira í átt til þess sem er skynsamlegt að mínu viti,“ segir Sigurjón.  

Strangari kröfur séu gerðar til minni þéttbýlisstaða á Íslandi en í Evrópu. 

„Ef að það væru sett gleraugu Evrópusambandsins og reglugerðarinnar sem er verið að útfæra hér á Íslandi þá væri það helst höfuðborgarsvæðið sem væri með ófullnægjandi hreinsun. Þar er einungis síun eða fyrsta stigs hreinsun, en frá mínum bæjardyrum séð tel ég að það verði ekkert meiri umhverfisbót að hreinsa skólp enn frekar en er gert þar,“ segir Sigurjón.