Segir Breta styðja mannréttindabrot

06.03.2016 - 02:32
epa04918743 Turkish protesters take part in a rally against the PKK and the killing of Turkish soldiers in Istanbul, Turkey, 07 September 2015. The Turkish army said on 07 September that 16 soldiers were killed and six wounded in an attack by Kurdish
Tyrknesk yfirvöld eru meðal þeirra sem hafa keypt öryggisbúnað frá Bretum.  Mynd: EPA
Listi yfir ríki sem boðið er á stærstu sölusýningu heims fyrir búnað til öryggisgæslu, sem fram fer í Bretlandi, veldur mannréttindasamtökum áhyggjum. Á listanum eru fjölmörg ríki sem hafa orðið uppvís að mannréttindabrotum. Mannréttindasamtök óttast að sýningin verði til dæmis notuð til þess að selja fulltrúum ríkjanna eftirlitsbúnað og tæki til þess að hafa stjórn á fjölmenni.

Sýningin er haldin á bakvið luktar dyr í Farnborough í Hampshire. Fulltrúar 79 ríkja mæta á hana, þar á meðal fulltrúar frá Barein, Egyptalandi, Ísrael, Sádí Arabíu, Tyrklandi og Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum. Öll þessi ríki hafa verið gagnrýnd fyrir framgang yfirvalda gegn fjöldamótmælum í kjölfar arabíska vorsins svokallaða.

Meðal sölusvæða á sýningunni verða nýsköpun í löggæslu, netöryggi, þjóðaröryggi og landamæravarsla að sögn breska dagblaðsins Guardian. Starfsmenn vopnasöludeildar hins opinbera leiða gesti sýningarinnar um svæðin.

Breskur búnaður notaður til mannréttindabrota

Samkvæmt breskum samtökum sem kallast Herferð gegn vopnasölu, eða Campaign Against Arms Trade (CAAT), hafa Bretar samþykkt 126 söluleyfi fyrir táragasi og öðrum ertandi efnum frá því David Cameron tók við stjórnartaumum í landinu árið 2010. Þá hafa 259 leyfi verið samþykkt fyrir sölu á óeirðarskjöldum, 79 fyrir búnaði gegn óeirðum og 75 fyrir skotfærum gegn fjölmenni.

Útgáfa leyfanna er mjög umdeild. Breskur búnaður hefur verið notaður í herferðum og mannréttindabrotum í Hong Kong, Barein, Egyptalandi og Kúveit.

Sýningin orkar tvímælis

Andrew Smith, talsmaður CAAT, segir í samtali við breska blaðið Guardian að spurningum um sölu á svokölluðum óbanvænum vopnum verði að svara. Sérstaklega þegar vopnin eru seld til landa sem stunda pyntingar, ólöglegar fangelsanir og aðrar viðlíka aðferðir gegn almenningi. Hann segir Breta ekki eiga að taka þátt í að vopnvæða þess háttar ríki.

Talskona úr innanríkisráðuneyti Bretlands segir sýningu af þessu tagi mikilvæga. Blómstrandi öryggisiðnaður sé nauðsynlegur til þess að sporna gegn glæpum og við verndun almennings. Það sé mikilvægt að deila sérkunnáttunni og kynna vörurnar.

Smith segir hins vegar að sýningin grafi undan þeirri staðhæfingu að Bretar stuðli að verndun mannréttinda um leið og þeir styrki stöðu ríkja sem brjóta þau.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV