Segir Bjarna ekki stjórna viðskiptum

21.01.2016 - 20:35
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbankinn Landsbankinn
Fjármálaeftirlitið krafðist gagna um sölu Landsbankans á hlut hans í Borgun en gerði engar athugasemdir eftir athugun málsins. Bankastjóri Landsbankans efast um að fjárfestarnir sem keyptu hafi vitað af milljarðahagsmunum sem fólust í kaupunum. Hann segir að tengsl nokkurra kaupenda hlutarins við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hafi ekkert með málið að gera. Bjarni stjórni ekki viðskiptum í bankanum.

Landsbankinn, sem seldi 31,2% hlut í kortafyrirtækinu Borgun fyrir 2,2 milljarða króna sumarið 2014, fær ekki hlut í hagnaði fyrirtækisins vegna yfirtöku Visa inc. á Visa í Evrópu. Hagnaður íslensku kortafyrirtækjanna vegna viðskiptanna er talinn nema vel á annan tug milljarða króna. Þetta hefur verið gagnrýnt töluvert.

Íslandsbanki á rúmlega 63 prósenta hlut í Borgun. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir að í byrjun árs 2014 hafi stjórnendur Borgunar gert tilboð í allt hlutafé fyrirtækisins. Íslandsbanki hafi hins vegar ekki haft áhuga á að selja sinn hlut. 

„Við vorum undir þrýstingi frá Samkeppnisyfirvöldum að selja. Þegar Íslandsbanki vildi ekki selja fór aðeins um okkur að vera með lítinn hlut. Við spurðum þá Íslandsbanka hvort þeir hefðu áhuga á að kaupa okkar hlut eða selja okkur þeirra hlut. Svarið sem við fengum frá þeim var nei í báðum tilvikum,“ segir Steinþór.

Í kjölfarið hafi tilboðsgjafarnir endurnýjað tilboðið í hlut Landsbankans eingöngu, á sama verði og boðið var í allt hlutaféð. Að því hafi verið gengið. 

Vildu ekki kaupa, vildu ekki selja

Hefði það ekki átt að kveikja einhver viðvörunarljós hjá ykkur að Íslandsbanki vildi ekki selja á þessu verði? Þýddi það ekki að Íslandsbanki taldi að það fælust meiri verðmæti í Borgun?

„Þeir vildu ekki kaupa, og þeir vildu ekki selja. Það sem okkur fannst kannski ekkert órætt við þetta var að Borgun og Íslandsbanki höfðu verið í nánu samstarfi. Íslandsbanki með töluvert mikið af Mastercard-viðskiptum. Og Borgun hafði verið að þjóna þeim með ýmislegt. Þannig að þetta var kannski hluti af þeirra viðskiptum, það sem Borgun var að gera fyrir Íslandsbanka. Þannig að það gátu verið eðlilegar ástæður fyrir því,“ segir Steinþór.

Vilduð þið fyrst og fremst hlýða Samkeppniseftirlitinu og haga því þannig að aðeins einn banki ætti í Borgun, sama hvort þið ættuð allt hlutaféð eða Íslandsbanki ætti allt?

„Já það er rétt. Við sáum að við vorum í mjög litlum viðskiptum við Borgun. En við vorum í miklum viðskiptum við Valitor. Og þetta var hrein stöðutaka hjá okkur að eiga hlutabréf í Borgun. Og úr því sem komið var væri eðlilegt að fara út. Bankinn hefur haft þá stefnu á undanförnum árum að losa sig við eignir í óskyldum rekstri. Og það má segja að þetta hafi verið þannig hlutabréf í ljósi þess hvað lítil viðskipti voru á milli Landsbankans og Borgunar.“

Þegar hlutur bankans í Valitor var seldur var ákvæði í samningi um að bankinn fengi greiðslu ef Visa Inc. seldi Visa Europe. Hvers vegna var það ekki gert í þessu tilfelli?

„Við vissum af þessu samkomulagi á milli Visa Inc. í Bandaríkjunum og Visa Europe um að það yrði hugsanlega, einhvern tímann, kannski farið í viðskipti þeirra á milli. Það myndi ganga út á að koma verðmætum til Visa-banka, eins og við vorum. En byggt á því hvaða Visa-viðskipti höfðu verið í gangi á undanförnum árum og til framtíðar. Og í ljósi þess að Visa-viðskiptin okkar voru öll í gegnum Valitor, ekkert í gegnum Borgun, sáum við ekki að það væri neinn grundvöllur að við værum að fá eitthvað í gegnum Borgun, ekki með nein framtíðarviðskipti hjá þeim og ekki nein fortíðarviðskipti og því ekki grundvöllur fyrir því að við værum að fá greiðslur þar í gegn. Hins vegar vorum við að verja okkar viðskipti í Visa með því að gera þetta samkomulag við Arion banka í gegnum Valitor. Og það er að ganga eftir að við erum að fá það fram. Okkur er tjáð að þetta sem Borgun er að langmestu leyti að fá sé komið til eftir að við seljum. Þannig að það sýnir bara að Landsbankinn átti ekki kröfu á að fá eitthvað sem Borgun myndi gera í framtíðinni. Hins vegar, þegar við vorum að leggja mat á söluverðið, fengum við áætlanir frá Borgun þar sem þeir sýndu fram á vöxt til framtíðar. Og við tókum tillit til þess í verðinu að við vildum fá hlut af þeim vexti.“ 

FME gerði athugun

Í frétt á vef Visa í Evrópu kemur fram að yfirtaka Visa Inc. á Visa í Evrópu hafi verið í deiglunni frá 2007. Miðað við það ætti lengi að hafa verið ljóst að miklir fjármunir gætu runnið til Valitor og Borgunar. Því er Steinþór ekki sammála.

„Viðskiptin sem Borgun fer í eftir að við seljum virðist að langmestu leyti vera grunnurinn að því sem þeir eru að fá,“ segir hann.

En voru það samt ekki mistök að selja á þessu verði? Ef þið hefðuð haldið lengur á þessum hlut hefðuð þið fengið hærra verð ekki satt?

„Jú Landsbankinn hefði getað verið í stöðutöku í alls konar hlutabréfum. En við höfum bara það viðskiptamódel að selja okkur út úr hlutabréfastöðum fljótlega eða eins hratt og við treystum okkur til.“

Steinþór segir að fjármálaeftirlitið hafi gert athugun á þessum viðskiptum á sínum tíma.

„Já Þeir óskuðu eftir gögnum hjá okkur í lok árs 2014. Þeir fengu allar þær upplýsingar sem þeir óskuðu eftir og við höfum ekki heyrt frá þeim síðan um þetta mál.“

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Fjármálaeftirlitið lokið athugun sinni á viðskiptunum, athugasemdalaust.

Þýðir ekki að velta sér upp úr þessu

Á meðal kaupenda að hlutnum í Borgun er Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar. Steinþór telur að Haukur og aðrir kaupendur hafi ekki vitað af væntanlegum milljarðatækifærum þegar þeir keyptu hlutinn.

„Nei ég efast um það. Mér sýnast viðbrögð Hauk Oddssonar í fjölmiðlum vera þannig að honum kemur þetta um margt á óvart, hvernig þessi Visa viðskipti virðast vera að færa þeim ávinning.“

En vissu þeir ekki af þeim fyrirfram?

„Ég veit það ekki. Þeir hafa kannski ákveðið að fara í vöxt í Visakorta-viðskiptum eftir að þeir kaupa af okkur. Kannski út af þessu, ég skal ekki segja.“

Hefurðu spurt Hauk Oddsson að þessu?

„Nei hann er bara að reka sitt fyrirtæki og við seldum þarna út. Þú selur hlutabréf og þá ertu bara frá félaginu. Það þýðir ekkert að vera að velta sér upp úr þessu.“ 

Haukur baðst undan viðtali þegar eftir því var leitað í dag.

Bjarni stjórnar ekki bankanum

Á meðal annarra í fjárfestahópnum sem keyptu hlutinn í borgun eru Einar Sveinsson, og Benedikt Einarsson sonur hans, en bent hefur verið á að Einar er föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. Steinþór segir það engu máli hafa skipt í þessum viðskiptum.

„Þetta voru nöfn sem komu inn í lokin. Þetta voru fyrst og fremst stjórnendur sem voru að nálgast okkur í byrjun. Og svo þegar leið á og mjög seint í ferlinu sáum við hverjir þessir meðfjárfestar þeirra voru. Og ef einhverjir þarna úti halda að Bjarni Benediktsson stjórni svona viðskiptum í Landsbankanum get ég fullyrt að svo er ekki. Stjórnmálamenn eru ekki að stjórna Landsbankanum. Og þannig á það ekki að vera. Þannig eru leikreglurnar. Við erum með eftirlit sem heitir FME sem er mjög virkt í því að hafa eftirlit með okkur og það er ekkert slíkt í gangi.“

Steinþór segir hins vegar að eftir á að hyggja hafi það vissulega verið mistök að selja ekki hlutinn í opnu söluferli.

„Við erum á því að í ljósi þess hvernig samfélagið var ósátt við þetta hefði verið betra að kalla eftir tilboðum,“ segir hann.

Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, sagðist í samtali við fréttastofu í dag aðspurður bera fullt traust til Steinþórs.