Segir ástandið hafa verið eins og í N-Kóreu

18.02.2016 - 11:20
epa04746415 British Labour Party member and former Mayor of London Ken Livingstone arrives for a meeting at the Labour Headquarters in London, Britain, 13 May 2015. Labour's national executive committee is holding a meeting to draw up a timetable to
Ken Livingstone.  Mynd: EPA
Ken Livingstone, fyrrverandi borgarstjóri Lundúna, kveðst ánægður með Jeremy Corbyn, nýjan leiðtoga breska Verkamannaflokksins, og segir hann vera að innleiða á ný lýðræði og gagnsæi í flokknum sem hafi horfið á meðan Tony Blair réð þar ríkjum.

Livingstone segir í viðtali við tímaritið New Statesman að Verkamannaflokkurinn hafi verið opinn og lýðræðislegur áður en Blair komst þar til valda. Corbyn ætli að innleiða það á ný, en hvernig það verði gert komi í ljós á næsta ársþingi flokksins. Í valdatíð Blairs og þeirra sem hafi kennt sig við New Labour hafi ástandið innan flokks verið meira í líkingu við Norður-Kóreu. 

Livingstone segir að framkvæmdastjórn Verkamannaflokksins sé nú meðal annars að vinna að breytingum á leiðtogakjöri og hverfa frá núgildandi reglum sem kveði á um að frambjóðandi verði að tryggja sér stuðning 15 prósenta þingmanna flokksins til að geta verið í framboði. Ýmsar leiðir séu í skoðun, en það sé beinlínis fráleitt að þingmenn geti útilokað frambjóðendur með neitunarvaldi.

Í viðtalinu fjallar Livingstone um möguleika Verkamannaflokksins á að komast til valda í kosningunum 2020. Hann segir tvennt geta ráðið þar úrslitum, að efnahagsástandið verði áfram bágborið og að George Osborne fjármálaráðherra verði þá orðinn leiðtogi Íhaldsflokksins.


Deila fréttKristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
18.02.2016 - 11:20