Segir ástæðu til að skoða skaðabótamál

24.02.2016 - 22:14
Evruseðlar.
 Mynd: sanja gjenero  -  RGBStock
Lögmaður eins sakborninganna í Aserta-málinu segir enga sök hafa verið í málínu og því geti sök ekki verið fyrnd, eins og vararíkissaksóknari hefur sagt. Lögmaðurinn telur ástæðu til að skoða hvort höfða eigi skaðabótamál á hendur ríkinu.

Fjórir menn voru ákærðir í mars 2013 fyrir meint gjaldeyrissvik  í Aserta-málinu svokallaða.  Héraðsdómur sýknaði mennina í desember 2014 á grundvelli þess að viðskiptin fóru ekki fram hér á landi. Í síðustu viku tilkynnti Ríkissaksóknari að ákveðið hafi verið að falla frá áfrýjun í málinu og sagði vararíkissaksóknari í fréttum Rúv í gær að rannsóknin hafi tekið miklu lengri tíma en stefnt var að og því miklar líkur á að sakir væru fyrndar. 

„Viðskiptin fóru ekki fram hér á landi, þetta voru lögmæt viðskipti, viðskipti sem voru ekki bönnuð samkvæmt lögunum. Þannig að það er engin sök og því síður er sú sök fyrnd. Þess vegna er það algjör fyrirsláttur að tala núna um að við mátum það svo að sök væri fyrnd. Það var engin sök og héraðsdómur tók á því, þannig að þessi ummæli standast enga skoðun, það er nú það fyrsta,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir héraðsdómslögmaður

Hún segir málsmeðferðina verulega ámælisverða. Málið hafi tekið langan tíma og athygli hafi verið vakin á þeim þáttum sem síðar leiddu til sýknu. 

„En ég held að það séu  öll efni til þess að skoða það alvarlega hvort það eigi að höfða bótamál á hendur ríkinu. “

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV