Segir árásir á Aleppo þjóðernishreinsanir

10.02.2016 - 22:14
epa05151280 A Syrian refugee woman carries food while refugees sit near Oncupinar Border gate in Kilis, Turkey, 09 February 2016. The Turkish government has so far kept the border closed to the more than 30,000 people stranded in northern Aleppo province
 Mynd: EPA
Allt að hundrað þúsund Sýrlendingar hafast við í tjaldbúðum við landamæri Tyrklands eftir að hafa flúið árásir sýrlenska stjórnarhersins. Forsætisráðherra Tyrklands segir árásirnar lið í þjóðernishreinsunum Sýrlandsforseta.

Sýrlenski stjórnarherinn hefur undanfarið herjað á borgina Aleppo með aðstoð loftárása Rússa. Minnst fimmhundruð hafa farist í árásunum, þar af 23 börn. Tugþúsundir manna hafa flúið borgina undanfarna viku í átt að landamærum Tyrklands. Þar er engum hleypt yfir nema særðum og sjúkum, en Tyrkir hafa komið upp átta risavöxnum tjaldbúðum fyrir fólkið sem bíður við landamærin. Í sumum búðunum er hvorki rennandi vatn né rafmagn.

Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt Tyrki til að opna landamæri sín, en Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, segir að þar með væru Tyrkir óbeint að taka þátt í þjóðernishreinsunum Assads Sýrlandsforseta. Árásir stjórnarhersins á Aleppo væru liður í að hrekja burt fólk sem ekki styður ríkisstjórn Assads.

Tyrkir hafa tekið við langflestum sýrlenskum flóttamönnum, en um tvær og hálf milljón Sýrlendinga eru þegar í Tyrklandi.