Segir áhöfn Scandinavian Star seka

21.02.2016 - 06:47
epa03652685 (FILE) File picture taken 07 April 1990 shows the cruise ferry Scandinavian Star after fire broke out on board the ship while in international waters in the Skagerak Sea between Oslo Fredrikshavn in Denmark. A working group, made up of
 Mynd: EPA  -  NTB SCANPIX FILE
Fyrrum eftirlitsmaður, sem nú er á eftirlaunum, segir áhöfn Scandinavian Star hafa átt hlut að máli þegar 159 létust í eldsvoða um borð í ferjunni fyrir 26 árum. Frá þessu greinir hann í viðtali við Politiken.

Flemming Thue Jensen var skipaeftirlitsmaður og sá um rannsókn brunans um borð í Scandinavian Star. Hann segir í viðtali við Lars Halsskov, sem skrifaði bók um brunann, að hann gruni að áhöfnin sé sek. Halsskov segir Jensen hafa ákveðið að stíga fram þar sem hann sé nú kominn á eftirlaun og hafi ekki neinu að tapa. Hann sé frjáls maður og vilji segja sannleikann.

Jensen segir íkveikjuna hafa verið vel skipulagða. Búið var að hindra að nokkur kæmist út um neyðardyr en rennihurð að bíladekkinu var haldið opinni með dyraklossa. Þeir voru geymdir á sérstökum stað sem aðeins áhöfnin vissi af að sögn Jensens.

Jensen telur einnig að þrír eldar hafi verið kveiktir um borð, en ekki tveir eins og áður var talið. Sá þriðji hafi verið kveiktur tólf tímum eftir stóra brunann, en þá voru aðiens nokkrir úr áhöfn skipsins um borð ásamt björgunarmönnum.

Lögreglurannsókn var í höndum Norðmanna sem sökuðu danskan vöruflutningabílstjóra, sem lést um borð, um að hafa kveikt í ferjunni. Ákæra á hendur honum var dregin til baka árið 2014. Málið var tekið upp að nýju í fyrra og stendur rannsókn enn yfir.