Segir að Gylfi verði sjálfur að biðja um sölu

16.07.2017 - 14:27
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
John Hartson, fyrrverandi landsliðsmaður Wales, segir að enska úrvalsdeildarliðið Swansea eigi alls ekki að selja Gylfa Þór Sigurðsson, leikmann liðsins, til Everton en Liverpool-félagið hefur verið á höttunum eftir Gylfa í allt sumar. Hartson segir í samtali við Wales Online að eina leiðin fyrir Gylfa til að fara frá félaginu sé að hann biðji sjálfur um að verða seldur.

Everton hefur þegar boðið 40 milljónir punda í Gylfa sem Swansea hafnaði. Bandarískir eigendur félagsins sendu fyrir helgi frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem þeir báðu Everton um að láta leikmanninn í friði ætli Everton sér ekki að borga uppsett verð - 50 milljónir punda.

Gylfi fór ekki með Swansea í æfingaferð til Bandaríkjanna vegna óvissunnar um framtíð sína. „Við berum mikla virðingu fyrir Gylfa bæði sem persónu og sem leikmanni og við vonum að hann muni endurskoða ákvörðun sína og haldi sem fyrst til liðs við samherja sína í æfingabúðunum í Bandaríkjunum,“ sögðu eigendurnir í yfirlýsingu sinni.

John Hartson, sem lék meðal annars með Arsenal og Celtic, segir að félagið megi alls ekki selja Gylfa. „En ef hann fer til Paul Clement og segir að hann vilji spila fyrir Everton þá verður félagið að taka einhverja ákvörðun. En það er eina leiðin fyrir Gylfa til að fara - að hann tilkynni félaginu að hann vilji fara.“

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV